Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fögnum fjölbreytileika  Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 24. febrúar 2022 kl. 10:11

Fögnum fjölbreytileika Reykjanesbæjar

Það er sannfæring mín að tækifærin liggi víða í Reykjanesbæ en þau þarf að grípa. Bærinn er fjórða stærsta sveitarfélag landsins og hefur alla burði til að vera framúrskarandi. Við eigum að geta laðað að okkur fólk með iðandi mannlífi, tryggri grunnþjónustu og sterkum innviðum.

Heilbrigðismál

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér starfar margt framúrskarandi fólk á sviði heilbrigðismála, sem gerir sitt besta í starfi, hins vegar hefur stjórnendum ekki tekist að auka þjónustustig á undanförnum árum. Bæjaryfirvöld eiga að krefjast þess að hér geti ríkt fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og skilaboðin ættu að vera skýr – ekki verður beðið lengur eftir úrbótum.

Forvarnarstarf fyrir öll

Forvarnir eru mér hjartans mál. Bærinn býr yfir frábæru fólki með sérþekkingu á ýmsum sviðum geðheilbrigðis, íþrótta og annarra tómstunda sem mikilvægt er að taki höndum saman og myndi með bæjaryfirvöldum uppfærða framtíðarstefnu sem nýtir hefðbundar jafnt sem óhefðbundnar leiðir í átt að enn öflugra forvarnarstarfi fyrir alla aldurshópa. Sérstaklega þarf að skoða úrræði fyrir börn og unglinga sem eiga erfitt uppdráttar í skólakerfinu. Það hentar sumum að ganga til sálfræðings en öðrum ekki. Úrræðin þurfa að endurspegla fjölbreytileikann. Forvarnarstarf er mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir brottfall úr framhaldsskólum, íþróttum sem og öðru tómstundarstarfi. Ég hef sérstakar áhyggjur af íbúum af erlendum uppruna, finna þarf leiðir til að hvetja þau til að stunda íþróttir og aðrar tómstundir.

Aðlaðandi bæjarfélag

Hvetja á framsækið fólk til að nýta krafta sína og einkaframtak í atvinnulífinu en þá þarf að tryggja þeim ákveðinn sveigjanleika í ýmsu regluverki og efla samvinnuna. Hvers vegna tekst okkur ekki að byggja upp spennandi miðbæjarkjarna líkt og önnur minni bæjarfélög hafa nú þegar gert? Hugmyndir hafa komið fram en við eigum að hugsa hlutina upp á nýtt og líta til reynslu annarra. Bæjarkjarninn getur orðið miðpunktur iðandi mannlífs sem bæjarbúar geta verið stoltir af og fólk úr öðrum bæjarfélögum sótt þangað þjónustu. Ásbrú er sömuleiðis gott dæmi um svæði þar sem tækifærin eru til staðar, þar bý ég og veit að íbúar svæðisins kalla eftir aðgerðum til að efla hverfið og gera íbúavænna. Þjónusta bæjarins á að miðast út frá þörfum bæjarbúa en ekki öfugt.

Kæru bæjarbúar

Framboð mitt er til marks um að ég þori að takast á við áskoranir. Ég vil komast í bæjarstjórn og hafa áhrif. Til þess þarf ég ykkar stuðning.

Eyjólfur Gíslason,
frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.