Fnykurinn í Garði
Árum saman höfum við, íbúar í Garði, Reykjanesi, mátt búa við það að fiskverkunarfyrirtæki í byggðarlaginu leyfist að spúa yfir íbúana úldinni gúanófýlu. Þetta er ekki hin góðkunna „peningalykt“, sem margir íbúar sjávarplássa kannast við, því hráefnið er gamalt og úldið. Eru þetta fiskhausar, sem eru þurrkaðir og seldir til útlandsins. Hvernig Matvælastofnun getur lagt blessun sína yfir þennan viðbjóð er ofar mínum skilningi. Árum saman hafa íbúar Garðs kvartað yfir fnyk þessum, bæði við bæjarstjórn og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, HES. Við litlar undirtektir.
Fyrir nokkrum misserum hélt bæjarstjóri Garðs fund með nokkrum helstu kverúlöntum bæjarfélagsins og framkvæmdastjóra HES. Þar var farið yfir málin og kverúlantarnir lýstu því hvernig ekki er hægt að lofta út úr húsum sínum vegna fnyksins. Sumir gengu svo langt að segja að húsnæði sitt væri ónýtt vegna þessa, lyktin föst í öllum innviðum og baðherbergi og þvottahús með rakaskemmdir, þar sem ekki er hægt að lofta út og viðra. Oft gerist það, ef maður bregður sér bæjarleið til höfuðborgarinnar, að upp gýs fnykurinn í bílnum, því hann er orðinn fastur þar. Á sólríkum dögum, sem ekki eru of margir hér á landi, er ekki hægt að vera utandyra og nota til dæmis tækifærið til að grilla, vegna fnyksins.
Á ofannefndum fundi kom fram að rekstrarleyfi fiskvinnslufyrirtækja til hausaþurrkunar rynni út 17. maí 2017. Einnig kom fram að afar ólíklegt væri að HES myndi leggja til, eða fallast á, að leyfið yrði framlengt. Bæjarstjóri og kjörnir fulltrúar skautuðu fimlega framhjá beinum yfirlýsingum, enda ekki til siðs að pólitíkusar svari beint kjósendum sínum.
Í miðjum þessum maí mánuði 2017 var lögð fram beiðni Nesfisks, til Heilbrigðisnefndar Garðs, um framlengingu rekstrarleyfis til hausaþurrkunar í starfsstöð Nesfisks í Garði, til tveggja ára, meðan önnur starfsstöð þess á Reykjanesi væri stækkuð. Af takmarkalausum undirlægjuhætti samþykkti nefndin framlengingu til eins árs, en reyndi þó að klóra í bakkann með því að skilyrða það með að ekki yrði vinnsla á sumarmánuðum. Hvaða tímabil er það? Við hvaða dagsetningar er miðað? Með þessu skilyrði er raunar viðurkennt að fnykurinn sé óásættanlegur. Það er samt leyfilegt að spúa þessum viðbjóði yfir íbúana meginpart ársins. Jól og áramót, páskar og allir aðrir dagar utan óskilgreinds „sumartíma“, allt í góðu kæri Nesfiskur, gjörðu svo vel! Þessa beiðni Nesfisks samþykkti Heilbrigðisnefnd Garðs, þrátt fyrir að HES legðist alfarið á móti því. Vænta má að heilbrigðisnefndin álíti þetta stórt mál til að auka heilbrigði bæjarbúa. Jafnvel tillag til að vinna gegn hlýnun jarðar?
Í Helguvík er búið að stöðva rekstur veksmiðju vegna mengunar. Í upphafi þess máls var lyktarmengun aðal umkvörtunarefni íbúa. Því fer víðs fjarri að ég sé að gera lítið úr þeirri lyktarmengun sem þar var, ásamt annarri efnamengun, sem síðar kom í ljós. Sú lykt komst þó ekki í hálfkvisti við fnykinn í Garði. Yfirvöld í Reykjanesbæ brugðust við, ályktuðu að mengun væri ekki ásættanleg og stöðvuðu reksturinn. Bæjaryfirvöld í Garði hneigja sig og kyssa á hönd mengunarvalda: Gjörið svo vel, en getið þið kannski sleppt að menga yfir sumarið? Fara ekki allir hvort sem er í sumarfrí? Má bjóða yður aðra sneið af tertunni?
Það verða bæjarstjórnarkosningar vorið 2018. Þetta er geymt en ekki gleymt.
Með bestu kveðjum, farinn inn í Keflavík í göngutúr. Hér í Garði er ekki úti verandi.
Stefán Þór Sigurðsson,
Silfurtúni 8, 250 Garður.