Flutningur Gæslunnar ákvörðun Alþingis
Samstaða þingmanna og sveitarstjórnarmanna um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja byggist einkum á tvennu; aðgerð til að efla atvinnustig á svæðinu og því að aðstaða sem framtíðaraðsetur Gæslunnar er ákjósanleg í Reykjanesbæ. Á þessum forsendum lögðum við allir 10 þingmenn kjördæmisins fram þingsályktun um flutning LHG til Suðurnesja og ríkisstjórnin fyrirskipaði innanríkisráðuneytinu að láta fara fram hagkvæmnisathugun á flutningnum.
Nú hefur sú athugun litið dagsins ljós. Fyrst sem frétt í Fréttablaðinu og síðar var hægt að nálgast hana á vefnum. Þannig var tryggt að "hagvæmnisathugunin" lifði nokkkuð lengi í umræðunni áður en nokkur gæti kynnt sér hana með gagnrýnum hætti.
Eftir fyrstu yfirferð yfir hana orkar margt í henni tvímælis og forsendur fyrir matinu þarfnast ítarlegrar skoðunar. Þetta þarf að leggjast miklu betur yfir og fá annað óháð mat á hagkvæmni flutnings LHG á Reykjanesið. Sú vinna verður á forræði Alþingis og allsherjanefndar. Ekki ráðuneytisins.
Svo háttar til að síðasta þingmál sem var mælt fyrir áður en páskahlé hófst var áðurnefnd þingsályktun. Oddný G. Harðardóttir þingkona Samfylkingarinnar mælti fyrir málinu fyrir hönd hópsins og nú er það komið til allsherjarnefndar þar sem Róbert Marshall fer með forystuna.
Því hefur nefndin óskorað svigrúm til þess að ráðast nú þegar í aðra, óháða og vandaða athugun á framtíðarverustað Landhelgisgæslunnar. Flutningur Gæslunnar er því á forræði Alþingis sem mun leiða málið til lykta eftir vinnu þingnefndarinnar.
Innanríkisráðuneytið hefur skilað málinu af sér með þessum umdeilda hætti. Nú er það á forræði þings og þingnefndar. Leiði önnur og ítarlegri athugun í ljós að flutningur er bæði hagkvæmur og skynsamlegur út frá faglegum forsendum jafnt og efnahagslegum er því ekkert til fyrirstöðu að Alþingi ákveði að stofnunin skuli flutt á Reykjanesið.
Við munum því ekki láta útspil innanríkisráðuneytisins stöðva málið. Sérstaklega þar sem svo heppilega háttar að það er komið til þingsins í formi ályktunar okkar þingmannanna tíu. Nú hefst sá þáttur málsins og við skulum spyrja að leikslokum. Alþingi hefur síðasta orðið. Ekki ráðherra. Því er brýnt að hraða vinnu nefndar og þings og leiða málið til lykta á málefnalegum forsendum.
Björgvin G. Sigurðsson,
þingmaður Samfylkingarinnar.