Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanes
Fimmtudagur 21. október 2004 kl. 12:00

Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanes

Eitt af þeim stóru verkefnum sem liggja fyrir stjórnendum Reykjanesbæjar á næstu mánuðum er skoðun á nánari samstarfi og framtíðaruppbyggingu við Keflavíkurflugvöll og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar eru mál sem ræða verður  að fullri alvöru, báðum aðilum til hagsbóta.
Alls hefur farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgað um rúmlega 21% það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra og verða ef fer sem horfir rúmlega 1600 þúsund. Í þessum mikla fjölda liggja fjölmörg tækifæri sem heimamenn eiga að nýta sér. Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar starfa um 500 manns og í ljósi áætlana um tvöföldun farþega um Keflavíkurflugvöll á næstu árum er einnig eðlilegt að áætla sömu þróun á starfsmannafjölda. Að auki hafa stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar uppi mikil áform um stækkun og aukna verslun og þjónustu og hafa þegar hafið undirbúning að forvali áhugasamra aðila. Samgöngumiðstöð við Reykjanesbraut, í landi Reykjanesbæjar, hefur verið kynnt og upplýsingasvæði fyrir ofan bæinn hefur þegar tekið á sig heildarmynd svo ekki sé minnst á framtíðartækifæri með innanlandsflugvöll á Keflavíkurflugvelli. Möguleikar svæðisins eru því margþættir og liggja í auknum atvinnutækifærum, sóknartækifærum í verslun og þjónustu í og við flugstöðina, upplýsingamiðstöð, innanlandsflugi og síðast en ekki síst með bættu aðgengi að hundruðum þúsunda innlendra og erlendra flugfarþega. Framtíðartækifæri sem önnur landsvæði geta aðeins látið sig dreyma um en við verðum að vinna að.

Atvinnumöguleikar
Þegar herðir að í atvinnumálum er mikilvægt að leita nýrra leiða eins og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur unnið ötullega að sbr. iðngarðar í Helguvík, háskólaumræða o.s.frv. Styrking á því sem nú er til staðar er ekki síður vænlegt til árangurs. Í þessu sambandi má nefna atvinnutækifæri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem gætu aukist yfir 100 á hverju ári ef áætlanir um aukna ferðamenn til landsins ná fram að ganga. Tækifæri svæðins liggja einnig í verslun og þjónustu í Flugstöðinni svo ekki sé minnst á eflingu í ferðaþjónustu með virku samstarfi Reykjaness og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Atvinnutækifæri af ýmsum toga s.s. kvennastörf og hlutastörf svo eitthvað sé nefnt.

Verslun og þjónusta Reyknesinga í Leifsstöð
Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ætti að vera stórt og áberandi skilti sem segir “Velkomin á Reykjanes.” Staðreynd sem þarf að gera meðvirka í hugum fólks og hlúa að. Þetta gætum við gert m.a. með samvinnu verslunar- og þjónustuaðila á svæðinu. Í tengslum við forval í verslun í flugstöðinni hef ég rætt við nokkra þeirra og kannað vilja til að styrkja sína verslun með tengingu og samstarfi í flugstöðinni. Það er mín sýn að engin geti sinnt þjónustu þar betur en við Reyknesingar bæði vegna tengsla og nálægðar. Með samstarfi á þessu sviði getum við styrkt verslun í heimabyggð þó svo að verslunin sjálf eigi sér jafnvel stað í flugstöðinni sjálfri. Hagur flugstöðvarinnar er augljós enda markmið stjórnenda skýr þ.e. að auka afþreyingu í stöðinni og fá ferðamenn til að nýta þjónustu hennar frekar og eyða meiri tíma þar en áður. Þessum markmiðum verður erfitt að ná nema með nánu samstarfi við heimamenn.

Staldrið við Reykjanesbraut
Eins og vegfarendur um Reykjanesbraut hafa séð hefur verið malbikað og hellulagt mikið plan ofan Reykjanesbæjar. Þar mun Vegagerð Ríkisins setja upp upplýsinga- og þjónustuskilti fyrir svæðið og landið í heild. Útsýni yfir Reykjanesbæ, með fjallahringinn í baksýn, er mjög gott og mun án efa auka vitund ferðamanna á svæðinu og auka möguleika ferðaþjónustuaðila á að kynna þjónustu sína.

Samgöngumiðstöð Íslands í landi Reykjanesbæjar
Í maí s.l. birtist grein um hugleiðingar mínar varðandi hugsanlegt þjónustusvæði fyrir bílaleigu- og langtímastæði ofan byggðarinnar í Reykjanesbæ í tengslum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gerir tillagan ráð fyrir sameiginlegri afgreiðslu allra helstu bílaleiga landsins við stórt bílastæði sem rúmað getur þúsundir bíla til framtíðar litið. Styrkleiki svæðisins, sem er ofan Iðavalla milli Aðalgötu og Flugvallavegar, er góð tenging við Reykjanesbraut þegar ekið er til eða frá Leifsstöð. Þá er svæðið hugsað sem vaktað bílastæði fyrir fjölda flugfarþega, auk þess sem þarna muni bílaleigurnar afgreiða alla bíla til viðskiptavina sinna. Frá svæðinu verða síðan stöðugar ferðir til og frá Leifsstöð en þessi leið hefur verið farin á mörgum stórum flugvöllum erlendis til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Mikil áhersla er lögð á að þjónustan verði bæði hagkvæmari og skilvirkari fyrir viðskiptavininn en nú er, en afgreiðslupláss bílaleiga í Leifsstöð er í dag mjög takmarkað á álagstímum. Lausn með bílastæðahúsi yrði mjög kostnaðarsöm sérstaklega þegar horft er til þess að gott landrými sem anna myndi þessari þjónustu til framtíðar er til staðar í hæfilegri fjarlægð. Þessi lausn myndi auka möguleika á að stærri bílaleigur myndu færa hluta starfsemi sinnar til Keflavíkur. Að auki bætir svæðið aðgengi ferðamanna að Reykjanesbæ um leið og að vera skilvirk leið til að fá þá til að staldra við og nýta frekar þjónustu á svæðinu.

Innanlandsflugvöllur í Keflavík
Þegar ákvörðun er tekin um að flytja innanlandsflugvöllinn úr Vatnsmýrinni verðum við að vera tilbúin en kostir Keflavíkurflugvallar eru margir og ótvíræðir. Fjárhagslegur ávinningur að ná betri nýtingu á besta flugvelli landsins með því að tengja innanlands- og utanlandsflugið á einn stað. Sparast þar stórar fjárhæðir árlega á hinum ýmsum þáttum enda er slík tenging mjög algeng á helstu flugvöllum erlendis. Þá má nefna veðurfarslega þætti sem eru Keflavíkurflugvelli mjög hægstæðir, nægt landrými og frábæra aðstöðu sem auðveldlega má hugsa fyrir sjúkra- og einkaflug. Hér er aðeins stiklað á stóru enda fjölmörg önnur atriði sem benda mætti á enda tenging við höfuðborg og landsbyggð tryggð með tvöfaldri Reykjanesbraut og Suðurstrandarvegi.
Oft er sagt að þegar þjónustan er of nálægt manni sjái maður hana ekki. Ekki láta slíkt sinnuleysi henda okkur og tökum höndum saman. Við höfum endalaus tækifæri - nýtum þau í okkar þágu.

Steinþór Jónsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ

Loftmynd/Oddgeir Karlsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024