Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fleiri ferðamenn
Miðvikudagur 25. desember 2013 kl. 08:22

Fleiri ferðamenn

Eftir Þórhildi Ídu Þórarinsdóttur
Ef ekkert sérstakt erindi er út í Garð er ekki víst að vegfarandinn stoppi heldur aki í gegnum bæinn, til dæmis á sunnudagsrúnti sínum. Fyrir þá sem ekki vita hvað staðurinn hefur upp á að bjóða er heimsókn hugsanlega sleppt. Garðurinn kemur þó ókunnugum fyrir sjónir sem snyrtilegur bær og gestir sem komu við á nýlegri sýningu einstaklinga og fyrirtækja sáu hve mikil gróska og sköpun leynist í þessu litla samfélagi.

Ferðamönnum sem koma til Íslands hefur fjölgað talsvert og er þeirri þróun spáð áfram. Nálægð Garðsins við flugstöðina er mikill kostur og byggðarlagið er vel staðsett í því tilliti. Erlendis þykir happ ef gisting fæst innan við 30 mínútna akstursfjarlægðar frá flugvelli.

Fyrir erlenda ferðamenn sem tilheyra fjölmennari þjóðum og búa á þéttbýlli svæðum er margt að sækja í Garðinn svo sem víðáttu, kyrrð, strandlengju, fjölbreytt fuglalíf, hugsanlega seli og hvali, berjamó í göngufæri, ört vaxandi safn gamalla muna, prestsetur, vitana tvo, fjölda listaverka um bæinn, mikilfenglegan fjallahring og sjónarspil norðurljósa á heiðskírum frostköldum dögum.

Svo ekki sé minnst á mannlífið en maður er manns gaman og hver hefur ekki ánægju af því að kynnast framandi menningu og siðum? Í desember fylgja margir gömlum jólasiðum og taka upp nýja. Íslensk jólahefð með þrettán jólasveinum og íslenskum matarhefðum, hangikjöti og laufabrauði er meðal þess sem ferðamenn eru spenntir fyrir enda sérstakt og framandi mörgum þeirra. Svo ekki sé minnst á jólaskreytingar sem koma ýmsum skemmtilega á óvart. Það er í lagi að ljóstra upp leyndarmáli sem ég hef átt með strákunum mínum, en það er sú venja að nema staðar við hús eitt og gjóa augunum (ekki of áberandi þó) á þvottasnúru hjá mömmu jólasveinanna. Við höfum komist að því að hún þvær og hengir út fyrir hver jól: treyju, brækur og sokka og leggur frá sér þvottaefnið C-11 við þvottavélina enda eru þeir margir bræðurnir og nóg af óhreinu taui. Þetta er svo einstakt að við höfum rennt framhjá um hver jól, til að sjá hvort mamman hafi ekki örugglega þvegið af jólasveinunum og hengt út í Garðinum.

Erlendir ferðamenn sækjast gjarnan eftir upplifun af íslenskri náttúru og afþreyingu. Ég hef ýmsar hugmyndir þar að lútandi en læt duga að nefna að gamli vitinn hefur lokið hlutverki sínu en hann er hægt að nýta til ýmissa hluta, svo sem að útbúa þar ,,Gistingu í Miðju-Atlantshafi“ og væri kjörið að láta hluta ágóðans renna til góðs málefnis.

Garðurinn er svæði sem er vert að gera betur skil og laða að gesti þótt ekki væri nema hluta þeirra sem fara daglega um Leifsstöð.

Höfundur er MPM-verkefnastjóri.

(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024