Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 27. september 2007 kl. 11:30

Fjórtánda starfsár Níu til tólf ára starfsins í Útskálakirkju hefst

NTT er skammstöfun kirkjustarfs níu til tólf ára barna í Útskálakirkju, sem hófst sl. fimmtudag í fjórtánda sinn. Það voru glaðir og hressir krakkar sem mættir voru í húsnæði Kiwanisklúbbsins Hofs, en þar verður starfið í vetur kl. 16:30 á fimmtudögum. Leiðtogar eru þau Kristjana Kjartansdóttir kennari, sem hefur stjórnað starfinu frá upphafi og Jón Árni Jóhannsson sem hefur nú þriðja árið sitt með NTT í Garðinum, auk þess sem hann verður með Fjólu Kristínu Jóhannesdóttur í NTT í Sandgerði. Jón Árni  spilar á gítar og stjórnar söngnum af miklum krafti.


Í vetur verður vináttan og kærleiksboðskapur Jesú Krists í fyrirrúmi. Samveran byggist upp á fræðslu, bænum, söng, leikjum, spuna, iðju og vettvangsferðum. M.a hafa börnin farið í fjöruna til að ná í steina í krossinn sem sést hér á myndinni. Fyrirhugað er að syngja á Garðvangi og víðar, enda sýndi hópurinn strax á þessari fyrstu samveru, hvað í honum býr og söng af miklum krafti.


NTT börnin hafa frá upphafi farið á vormót í Vatnaskógi, þar sem börn úr mörgum öðrum kirkjum koma saman undir stjórn frábærra leiðtoga.


Stundum hafa börnin safnað fyrir ferðunum m.a. með sölu á skrautrituðum bænum, íkona-englamyndum og glösum með mynd af Útskálakirkju, en oftast hefur sóknarnefndin styrkt þau til ferðarinnar og alltaf sýnt þessu starfi mikinn hlýhug og áhuga. Nú síðast kom formaðurinn Jón Hjálmarsson færandi hendi með DVD tæki sem kemur að góðu gagni bæði til að sýna efni sem tekið verður upp á fundum s.s. leikatriði og stuttmyndir.  Einnig hefur fræðsludeild kirkjunnar  látið framleiða efni á DVD sem ætlað er til nota í barnastarfinu, svo þessi gjöf er velþegin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024