Fjórða sætið er lukkusætið
Tveir frambjóðendur af Suðurnesjum, Grétar Mar Jónsson (F) og Björk Guðjónsdóttir (D) unnu sér sæti á Alþingi í nýafstöðnum kosningum, eins og allir ættu að vita. Grétar hefur áður setið á þingi sem varamaður en Björk er að feta sín fyrstu spor á þessum vettvangi.
Það er ekki ofsögum sagt að kosninganóttin hafi verið tvísýn og spennandi. Eins konar rússíbanareið þar sem þingmannsefni fóru inn og út um dyr löggjafasamkundunnar allt fram undir morgun.
Fyrstu tölur sýndu Björk inni á þingi, en ekki blés eins byrlega þegar þriðju tölur komu úr kjördæminu og þá var hún úti. „Þá sá ég að það var ekkert sem ég gat gert úr því og ákvað að leggja mig í tvo tíma. Þegar ég svo vaknaði aftur var ég dottin inn aftur.“
Björk hefur setið í bæjarstjórn í Reykjanesbæ fyrir Sjálfstæðisflokk og hefur síðustu tvö kjörtímbil gegnt starfi forseta bæjarstjórnar. Ekki er laust við að samhljóms gæti á innkomu hannar á báðum vígstöðvum. „Þegar ég kem inn í bæjarstjórn var ég í 4. sæti eins og nú þannig að fjórða sætið er mitt lukkusæti og í hvorugu tilfelli munaði mörgum atkvæðum.
Björk segist ekki vera búin að leggja fyrir sig einhver sérstök mál sem hún hyggist beita sér fyrir, enda hafi hún fyrst og fremst verið að berjast fyrir þingsætinu undanfarið. „Ég hef auðvitað mikinn áhuga á að fylgja eftir okkar áherslumálum í samgöngumálum kjördæmisins, en svo finnst mér velferðarmál og málefni fjölskyldunnar vera komin á dagskrá. Það er nú tækifæri til að taka á þeim málum.“
Mikill hiti var í Suðurnesjamönnum í upphafi kosningabaráttunnar þar sem lengi leit út fyrir að fáir, ef nokkur, af svæðinu kæmist inn á þing. Betur fór en á horfðist, en Björk segir gífurlega mikilvægt að svæðið eigi sinn málsvara á Alþingi. „Þegar Árni R. Árnason lést snemma á siðasta kjörtímabili fann maður að það breytti miklu. Hér á Suðurnesjum er mikið að gerast og það þarf fólk á þingi til að vinna að þeim málum.“
Sem forseti bæjarstjórnar er í mörg horn að líta en Björk á enn eftir að endurmeta stöðu sína í því tilliti.
„Það getur verið að ég þurfi að breyta einhverju, ég ætla að nota sumarið í að skoða þau mál, en það er ekki ólíklegt að ég þurfi einhversstaðar að bakka út eða breyta,“ sagði þessi nýjasti þingmaður Suðurnesja að lokum.
VF-mynd/Þorgils - Björk á kjörstað