Fjölskylduvænn Reykjanesbær?
Torfi Már Hreinsson íbúi í Reykjanesbæ skrifar
Nú um áramót varð breyting á formi umönnunargreiðslna vegna barna í Reykjanesbæ. Ákveðið hefur verið að þrýsta barnafólki með börn á aldrinum 9–15 mánaða eins fljótt og auðið er út á vinnumarkaðinn með því að leggja niður umönnunargreiðslur til barnafólks sem vill og hefur áhuga á að vera heimavinnandi á þessum fyrstu mánuðum í lífi barnsins. Í staðinn eru foreldrar neyddir til þess að setja börnin sín til dagforelda. Einhvern tíman var talað um að gott væri að ala upp börn í Reykjanesbæ en með þessum breytingum er verið að þrengja að barnafólki.
Ég geri mér grein fyrir því að umönnunargreiðslur eins og þessar eru ekki fáanlegar í öðrum bæjarfélögum á landinu og finnst mér alveg skiljanlegt að gerðar verði einhverjar breytingar á erfiðistímum sem þessum. Það sem fer fyrir brjóstið á mér er hvernig er staðið að þessu!
Barnafólk sem hefur gert ráð fyrir þessum greiðslum í sínu fjárhagsbókaldi fær kalda gusuna í andlitið nú þegar umsókn á umönnunargeiðslum er hafnað þessi mánaðamótin. Það má vel vera að einhver umræða hafi verið á lofti vegna þessa máls, en hún hefur ekki skilað sér á skýran hátt til barnafólks þar sem niðurstaða málsins var ekki staðfest fyrr en 23.desember sl. þar sem meirihluti felldi tillögu um að viðhalda greiðslunum með 3 atkvæðum. Aðlögunartími fólks með börn á aldrinum 9–15 mánaðar var sem sagt 11 dagar.
Virðingarfyllst
Torfi Már Hreinsson íbúi í Reykjanesbæ