Fjölskyldudagurinn í Vogum 2010
Í samstarfssamningi nýrrar bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum er rík áherlsa lögð á forvarnastarf fyrir börn og unglinga. Hluti af öflugum forvörnum er að skapa fjölskyldum tækifæri til að vera saman og skemmta sér á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt.
Fjölskyldudagurinn í Vogum verður haldinn í þrettánda sinn laugardaginn 14. ágúst. Markmiðið með deginum er að styrkja samfélagið í bænum, bjóða upp á skemmtun og afþregingu og gefa ungum og eldri bæjarbúum tækifæri til að skemmta sér saman.
Það er mikilvægt fyrir lítið bæjarfélag að huga að sérstöðu sinni. Vogar hafa undanfarin ár unnið að því að vera í fremstu röð sem fjölskylduvænt og heilbrigt sveitarfélag. Samábyrgð og samstaða er mikilvæg til að styrkja sveitarfélagið og jákvætt framlag sérhvers íbúa skiptir mikilu máli. Við sem erum fullorðin þurfum að vera unga fólkinu okkar fyrirmynd, við þurfum að leita eftir hugmyndum þeirra og hjálpa því að gera þær að veruleika. Þetta er einnig hlutverk lítils samfélags. Bærinn þarf að bjóða upp á heilsusamlegt og uppbyggilegt nám og félagsstarf, hlusta á unga fólkið og veita þeim stuðning sem á einn eða annan hátt finnur sér ekki farveg í lífinu.
Með þetta að leiðarljósi má líta á fjölskyldudaginn á laugardaginn sem hluta af metnaðarfullu uppbyggingarstarfi fyrir ungt fólk og fjölskyldur þeirra í Vogum. Á fjölskyldudeginum leggja fjölmörg félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki sitt af mörkum til að gera glæsilega skemmtun að veruleika. Ég vil fyrir hönd bæjarstjórnar þakka öllu því fólki sem hefur lagt sitt af mörkum í undirbúningnum. Skemmtum okkur saman á fjölskyldudeginum því þegar byggja þarf gott samfélag eru hagsmunir okkar allra þeir sömu.
Gleðilegan fjölskyldudag.
Inga Sigrún Atladóttir
Forseti bæjarstjórnar
Sveitarfélaginu Vogum.