Fjölskyldu formanns kjörnefndar hótað
Í gærkvöldi var í Valhöll haldinn fundur kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og sagði Ellert Eiríksson formaður kjörnefndar að fundurinn hefði verið góður og þar hefði Kristján Pálsson alþingismaður skýrt sín sjónarmið. Ellert Eiríksson sagði í samtali við Víkurfréttir að á fundinum í kvöld verði tekin endanleg afstaða til beiðni Kristjáns um að hann verði á lista flokksins. Ellert segir að í umræðu síðustu daga sé mjög ómaklega vegið að kjörnefndinni og störfum hennar: „Það er verið að halda fram hlutum sem eru ekki réttir og ég er mjög ósáttur við það,“ segir Ellert og bætir við að þrátt fyrir langt starf í stjórnmálum þar sem hann sé ýmsu vanur hafi ýmis ummæli fallið síðustu daga sem hann sé mjög ósáttur við: „Þegar því er haldið fram að kjörnefndin starfi af ruddaskap með það eitt að markmiði að koma Kristjáni út, þá get ég ekki lengur orða bundist. Fjölskyldu minni hefur verið hótað vegna þessa máls og mér finnst nóg komið þegar aðilar eru farnir að draga fjölskyldu mína inn í þessa umræðu og halda því fram að hún beri einhverja ábyrgð í þessu máli. Væri það hins vegar satt sem haldið er fram að kjörnefndin væri með skipulögðum hætti að koma í veg fyrir að Kristján næði frama á listanum, þá væri ekkert við þessu að segja. Í störfum mínum sem formaður kjörnefndar hef ég gætt hlutleysis í hvívetna og reynt að draga fram vilja stórs meirihluta kjörnefndarinnar í þessu verkefni. Ég hef hvorki dregið taum Kristjáns Pálssonar eða lagst gegnum honum eða einhvers annars sem hefur sóst eftir sæti á listanum.“ Töluverð gagnrýni hefur komið fram á kjörnefndina að Guðjón Hjörleifsson úr Vestmannaeyjum hafi setið í kjörnefndinni, en síðan sagt sig úr henni og sé nú kominn á lista flokksins. Ellert segir að ekkert óeðlilegt sé við það: „Guðjón var löngu farinn úr nefndinni áður en honum var stillt upp á listann. Hann gaf kost á sér, en þegar kom að því þá var hann löngu farinn úr kjörnefndinni og hafði ekkert með það að gera,“ sagði Ellert Eiríksson í samtali við Víkurfréttir.