Fjölskyldan í fyrirrúmi hjá Framsókn
Í morgun fór fram blaðamannafundur Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ en þar var kynnt nýútgefin stefnuskrá flokksins fyrir komandi sveitastjónarkosningar. Framsóknarflokkurinn hyggst stefna að því að koma þremur bæjarfulltrúum inn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fyrir komandi kjörtímabil. Í stefnuskránni sem nú hefur verið dreift um öll hús í Reykjanesbæ kemur glögglega í ljós að Framsókn hyggst efla fjölskyldugildi í bænum og stuðla að bættri aðstöðu fyrir yngri kynslóðina með svokölluðu tómstundatorgi sem ætlað er krökkum á aldrinum 16 ára og upp úr. Þá hyggst flokkurinn beita sér í skipulagsmálum í bænum og liggur Hafnargatan m.a undir smásjá framsóknarmanna. Einnig eru samgöngu- og atvinnumál ofarlega á lista framsóknarmanna og er þá einna helst verkefnið ´´Taxibus´´ sem hefur verið í umræðunni að undanförnu tilbúið til skoðunar. Kjartan Már Kjartansson, oddviti flokksins sagði á blaðamannafundinum að stefnuskráin væri aðeins brot af þeim hugmyndum sem framsóknarflokkurinn hefur lagt fram til að gera góðan bæ betri og hvatti hann alla bæjarbúa til að kynna sér skrána.