Fjölskyldan fyrst!
– Vinnum markvisst að því að gera Reykjanesbæ að fjölskylduvænu sveitarfélagi
Birgitta Rún Birgisdóttir, skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.
Í síðustu grein minni kynnti ég til sögunnar stefnuáherslu sem hefur það að markmiði að flétta fjölskyldusjónarmið inn í allar meiriháttar ákvarðanir bæjarstjórnar. Takmarkið er að ráðstafanir og allar meiriháttar ákvarðanir bæjarstjórnar taki mið af fjölskyldum (í fjölbreyttum skilningi þess orðs). Í þessum stutta pistli langar mig að nefna til sögunnar nokkur verkefni sem nauðsynlegt er að skoða með hagsmuni fjölskyldna í huga.
Það er ljóst að atvinnulífið og skólastarf í víðum skilningi þarf að tengja vel saman. Skólarnir okkar og leikskólar sinna mikilvægustu verkefnum samfélagsins: að undirbúa börnin okkar fyrir bjarta framtíð. En á sama tíma og skólarnir sinna þessu mikilsverða verkefni þá gera þeir líka foreldrum kleift að leggja stund á vinnu (og eða nám) sér og samfélaginu til hagsbóta. Þetta þarf að tengja enn betur saman. Þarna þarf að taka ákvarðanir sem hafa jákvæð áhrif á fjölskyldur. Það er algjör forsenda fyrir fjölskylduvænu samfélagi að boðið sé upp á leikskólapláss fyrir börn frá átján mánaða aldri. Það eykur þroska þeirra og á sama tíma gefur það foreldrum tækifæri á að sækja fyrr út á vinnumarkaðinn.
Félagsmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki í að efla félagsþroska barna og ungmenna. Þær þjóna ekki tilgangi sínum nema þær séu aðgengilegar fyrir börn hvar sem þau búa í sveitarfélaginu. Við leggjum því áherslu á að félagsmiðstöðvar verði opnaðar í sem flestum hverfum sveitarfélagsins, t.d. í samvinnu við grunnskólana.
Skipuleggja þarf frístundaakstur og strætisvagnaferðir með þarfir skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs í huga. Hér skiptir lykilmáli að rýna í það hvernig verkefnið hefur gengið og ræða við foreldra, starfsfólk á þessu sviði en ekki síst börnin sjálf. Hvernig hefur til tekist og hvernig er hægt að gera enn betur?
Síðast en ekki síst þrífast fjölskyldur ekki nema þær hafi bolmagn til að framfleyta sér. Kröftugt og fjölbreytt atvinnulíf gegnir þar lykilhlutverki. Líka skattaumhverfi sem tekur tillit til hagsmuna fjölskyldna. Í báðum tilfellum leikur sveitarfélagið mikilvægt hlutverk. Allt þetta þarf að skoða út frá sjónarhorni fjölskyldna. Fjölskyldan fyrst!