Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Miðvikudagur 31. mars 1999 kl. 17:47

FJÖLNOTA ÍÞRÓTTAHÚS

Fjölnota íþróttahús Síðastliðin fjögur ár hefur meirihluti bæjarstjórnar unnið að því að leita leiða til þess að byggja glæsilegt fjölnota íþróttahús í Reykjanesbæ. Það var gert að beiðni íþróttahreyfingarinnar. Norðmenn hafa byggt hús af þessu tagi undanfarin ár og hefur það orðið til þess að árangur þeirra í knattspyrnu verið á heimsmælikvarða. Einnig er meirihluti bæjarstjórnar sér meðvitaður um að nauðsynlegt er að bjóða unga fólkinu okkar góða aðstöðu til íþróttaiðkanna, svo það vilji búa í þessu bæjarfélagi í framtíðinni. Öflugt íþróttastarf er besta fornvarnarstarf gegn hvers konar óreglu og eiturlyfjum, sem völ er á. Allar geinar Fjölnota íþróttahús er til fyrir allar íþróttagreinar og ekki síður frjálsar íþróttir en boltaíþróttir. Einnig er hægt að halda þar stærri menningarviðburði og sýningar innan dyra. Með byggingu hússins flyst allur fótbolti úr öðrum íþróttarhúsum bæjarins og rýmkar þannig fyrir öðrum íþróttagreinum, svo sem fimleikum, körfubolta og ýmsu fleiru. Þetta er nóg um ágæti fjölnota íþróttahússins, en það mun svo sanna sig sjálft í framtíðinni. Samningur við Verkafl hf. um byggingu og leigu bæjarfélagsins á þessu húsi var undirritaður þann 14 mars sl.. Húsið kostar fullbúið 371 milljón króna og þar af er virðisaukaskattur um 70 milljónir króna, sem ríkið fær. Við munum borga 27 milljónir króna leigugjald á ári í 35 ár. Leiguréttur er í 15 ár til viðbótar eftir þessi 35 ár. Þá yrði að semja að nýju um leiguna og að sjálfsögðu á mjög lágu verði. Reykjanesbær getur þó keypt húsið hvenær sem er á leigutímanum. Verkafl hf. sér um viðhald að utan fyrstu 5 árin. 20 ár Fyrir 20 árum hófst umræða innan íþróttahreyfingarinnar um að byggja hús af þessari gerð. Nú er rétti tíminn til þess að ráðast í þessa framkvæmd, ef við hefðum ekki notað tækifærið sé ég ekki að þessi bygging rísi næstu 20 árin. Ég er mjög ánægður með þennan samning og tel að bærinn fái húsið ódýrara, þar sem þetta er fyrsta húsið á Íslandi af þessari gerð, sem samið er um. Verkafl hf. ætlar sér stóra hluti á íslenska byggingamarkaðnum í framtíðinni. Þess vegna var þeim í mun að vanda allan undirbúning að hönnun og útliti þessa húss, að það fullnægði væntingum iðkenda íþrótta, áhorfenda og starfsmanna. Jafnframt að útlit byggingarinnar muni falla vel að umhverfi sínu og að hún sé viðhaldslítil, bæði utan og innan og að rekstur sé hagkvæmur. Húsið verður auglýsing fyrir Verkafl hf. í framtíðinni. Á móti Minni hlutinn hefur barist á öllum stigum þessa máls gegn því að þetta hús yrði byggt. Þeir hafa komið fram í fjölmiðlum og lýst því yfir að meirihlutinn í bæjarstjórn sé að brjóta lög með þessari byggingu. Þeir hafa gengið svo langt að hóta að kæra okkur til Eftirlitsstofnunarinnar EFTA í Brussel! Einnig segja þeir að við munum setja bæjarfélagið á hausinn vegna þessarar og annarra framkvæmda og bæjarfélagið lendi í gjörgæslu hjá félagsmálaráðuneytinu. Minni hlutinn bendir á að hægt sé að setja gervigras á malarvöllinn. Það er framkvæmd upp á 120 milljónir króna og er gömul hugmynd, sem hentar ekki í dag. Tveir hamborgarar Á næsta ári þegar húsið verður tekið í notkun þarf bærinn að borga áðurnefndar 27 milljónir króna. Eignarhaldsfélag Brunabótafélagsins mun borga sem nemur 13 til 16 milljónum króna í arð til bæjarfélagsins árlega. Á síðasta ári var Olíusamlagi Keflavíkur breytt í hlutafélag og fékk bærinn í sinn hlut að nafnverði 8,5 milljónir króna, sem metið er í dag nálægt 67 milljónum króna. Af þessari eign mun bærinn fær greiddar 800 til 900 þúsund krónur í arð á næsta ári. Báðir þessir tekjuliðir verða nýir tekjuliðir fyrir bæinn og á að nota þessa peninga í umrætt íþróttahús. Þá vantar 10 til 11 milljónir króna. Íbúar í Reykjanesbæ eru 10500 og mun bærinn því borga úr rekstri, sem nemur 1000 krónum á hvern íbúa. Það er jafnvirði um það bil tveggja tvöfaldra hamborgara með frönskum og kók. Ágætu bæjarbúar finnst ykkur að meirihlutinn sé að fara með bæinn í gjaldþrot vegna þessarar byggingar? Þrátt fyrir þessa framkvæmd verður farið í að laga aðstöðu fyrir fimleika og síðan verður farið að undirbúa byggingu innisundlaugar og félagsaðstöðu fyrir íþróttafólk. Bjartsýni Í drögum að nýjum raforkulögum sem kynnt hafa verið af iðnaðarráðuneytinu er gert ráð fyrir að öll orkufyrirtæki verði gerð að hlutafélögum. Stjórn hitaveitunnar lét Kaupþing hf. vinna mat á verðgildi Hitaveitu Suðurnesja nýlega. Samkæmt þessu mati er verðgildi fyrirtækisins rúmlega 8 milljarðar króna. Eignarhlutur Reykjanesbæjar í fyrirtækinu er 52,2 % eða um 4,2 milljarðar króna. Þessi eign okkar er ekki talin með í bæjarreikningunum. Ég er mjög bjartsýnn varðandi framtíð Reykjanesbæjar með tilliti til allra þeirra valkosta, sem við eigum og er ekki tilbúinn til að hlusta á úrtölur og svartsýnisspár minnihlutans. Ég vona að bæjarbúar séu sama sinnis og verði áfram jafn glaðir og hressir og þeir hafa verið. Reykjanesbær er í sókn. Þorsteinn Erlingsson Bæjarfulltrúi á D- lista, lista Sjálfstæðisflokksins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024