Aðsent

Fjölmenning er frábær
Guðbrandur Einarsson.
Miðvikudagur 10. janúar 2018 kl. 11:56

Fjölmenning er frábær

Íbúar Reykjanesbæjar, sem eru af erlendu bergi brotnir, eru nú orðnir rúmlega fimmtungur íbúa. Flestir koma þeir frá Póllandi en einnig frá fjölda annarra ríkja. Það er mikil áskorun í því fólgin að vera útlendingur langt frá sínum heimahögum. Menningarheimar geta verið mismunandi, sem gerir það að verkum að aðlögun að nýju samfélagi getur reynst erfið og tekið tíma. Því er mikilvægt að til staðar séu verkfæri og verkferlar sem hjálpa til við þessa aðlögun.

Komið hefur í ljós að börn af erlendum uppruna nýta ekki hvatagreiðslur með sama hætti og íslensk börn og ungmenni. Við þessu er verið að bregðast og unnið er að því að koma þjónustuvef Reykjanesbæjar, „MITT REYKJANES”, á fleiri tungumál en íslensku til þess að auðvelda aðgengi erlendra íbúa að þjónustu sem þar er til staðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er nauðsynlegt að auka virkni erlendra íbúa, flýta fyrir aðlögun og um leið auka lífsgæði þeirra.
Til þess að bregðast við þessari stöðu verður lögð fram tillaga í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að ráðinn verði starfsmaður, einhvers konar fjölmenningarfulltrúi, sem hafi það hlutverk að þjónusta þennan hóp, greina aðstæður þeirra og vinna að aukinni virkni erlendra íbúa í samfélaginu okkar.

Við lifum á tímum breytinga og við eigum að taka þeim fagnandi. Fjölmenning og fjölbreytni í mannlífinu getur ekki orðið til neins annars en góðs.

Guðbrandur Einarsson
forseti bæjarstjórnar og oddviti Beinnar leiðar