Aðsent

Fjölbreyttir kennsluhættir og aukið val í Akurskóla
Laugardagur 20. janúar 2018 kl. 06:00

Fjölbreyttir kennsluhættir og aukið val í Akurskóla

Vorið 2017 fór Akurskóli í gegnum svokallað ytra mat á vegum Menntamálastofnunnar. Einn af þeim þáttum sem bent var á að betur mætti fara í skólastarfinu var að auka val nemenda.
Til að koma til móts við þessa ábendingu matsaðila og til að auka fjölbreytni nemenda tóku starfsmenn Akurskóla upp nýja hætti.

Fjölval á yngsta stigi og miðstigi
Á yngsta og miðstigi var tekið upp á að bjóða upp á val einu sinni í viku í tvær kennslustundir. Lagt var upp með að kennarar byðu upp á fjölbreyttar stöðvar sem allir nemendur gætu prufað og svo yrði valið meira í næsta hring.
Á föstudögum í tveimur fyrstu tímunum er Fjölval hjá yngsta stigi og á miðvikudögum kl. 10:00 til 11:20 hjá miðstigi.  Þá er öllum nemendum í 1. - 4. bekk annars vegar og 5. - 7. bekk hins vegar skipt upp í minni hópa sem fara í fjölbreytta vinnu á mismunandi stöðum. Hóparnir fara svo á milli stöðva og prufa nýja stöð í hverri viku. Stöðvarnar eru eins mismunandi eins og þær eru margar s.s. leiklist, vísindi, hreyfing, söngur, þrautir og spil.

Public deli
Public deli

Vinnustundir á elsta stigi
Á unglingastigi var farin önnur leið með að auka val nemenda með svokölluðum vinnustundum.
Nemendum er boðið upp á tvær kennslustundir á viku þar sem þeir geta leitað sér aðstoðar við nám/heimanám í öllum bóklegum greinum. Tilgangurinn með þessum tímum er að  auka frelsi nemenda og ábyrgð á eigin námi sem og að koma til móts við sérþarfir nemenda. Þannig er stuðlað að eftirfarandi þáttum í lykilhæfni aðalnámskrá grunnskóla:

Að nemandi geti við lok 10. bekkjar:
Tekið frumkvæði í námi sínu og verið sjálfstæður og ábyrgur í vinnubrögðum.
Gert sér grein fyrir hvernig hann getur hagnýtt sterkar hliðar sínar á skapandi hátt í námi og haft skýra sjálfsmynd.
Sett sér raunhæf markmið um frammistöðu og framvindu eigin náms, unnið eftir þeim og lagt mat á hvernig til hefur tekist.
Skipulagt og borið ábyrgð á eigin námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár, skipulagt og endurskoðað með tilliti til mats á árangri.
Nemandi mætir í þá stofu sem tilgreint fag er kennt í og hann kýs að vinna að. Nemendur vinna í eigin efni undir leiðsögn kennara eða fá efni frá kennara.
Það sem af er hausti hafa þessar vinnustundir tekist ákaflega vel. Nemendur eru mjög áhugasamir og taka ábyrgð á eigin námi og vali. Bæði kennarar og nemendur eru ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag.

Sigurbjörg Róbertsdóttir,
skólastjóri Akurskóla.