Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 17. september 2002 kl. 09:47

Fjölbreyttar ályktanir af aðalfundi SSS

Ályktanir um viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja, rekstrarvanda Hjúkrunar- og dvalarheimila, stefnumótun í þjónustu við sjúka aldraða, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, áhrif skattalagabreytinga, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, veg frá Stafnesi í Hafnir um Ósabotna, Suðurstrandarveg, ályktun um lækkun á kostnaði heimilanna vegna skulda þeirra og ályktun um hækkun skattleysismarka voru samþykktar á nýafstöðnum aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.Ályktun um viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Grindavík 13. og 14. september 2002 leggur þunga áherslu á að framkvæmdir geti hafist sem fyrst við stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Fyrir liggja drög að samningi við Menntamálaráðuneyti um stækkun F.S.
Þá segir: Aðalfundurinn ítrekar stuðning sveitastjórna á Suðurnesjum við fyrirhugaða framkvæmd um stækkun F.S og skorar á menntamálaráðherra og fjármálaráðherra að ljúka málinu, þegar í stað. Samþykkt samhljóða.


Rekstrarvandi Hjúkrunar- og dvalarheimila

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Grindavík 13. og 14. september 2002 vekur athygli á þeim rekstrarvanda sem hjúkrunar- og dvalarheimili standa frammi fyrir. Stefnir í stórfelldan halla á rekstrinum sem rekja má til launahækkana, hækkana á lyfjum og fleiri þátta sem ekki er tekið nægjanlegt tillit til í daggjöldum. Launahækkanir eru þó í fullu samræmi við samninga sem ríkið gerði við heilbrigðisstéttir. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum slorar á stjórnvöld að flýta endurskoðun daggjalda fyrir Hlévang og Garðvang í samræmi við álit starfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga svo tryggja megi hallalausan rekstur heimilanna. Samþykkt samhljóða.


Stefnumótun í þjónustu við sjúka aldraða.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Grindavík 13. og 14. september 2002 áréttar mikilvægi þess að gott samstarf sé milli ríkis og sveitarfélaga varðandi stefnumótun í þjónustu við sjúka aldraða. Þar sem bæði félagsþjónustur sveitrarfélaga og heilbrigðisstofnanir ríkisins sinna þjónustu við sjúka aldraða er nauðsynlegt að verkaskipting sé skýr til þess að allir sem á þjónustunni þurfa að halda fái hana. Má nefna sem dæmi málefni heilabilaðra (Alzheimer). Sveitarfélögin á Suðurnesjum einsetja sér að skilgreina þjónustu við aldraða þannig að hún megi vera skilvirk og markviss og nái til allra. Aðalfundurinn leitar eftir samstarfi við heilbrigðis- og fjármálaráðherra um slíka stefnumótun með það að markmiði að henni ljúki fyrir árslok 2002.
Heilbrigðis- og fjármálaráðherra eru hvattir til þess að bregðast skjótt við þessari málaleitan. Þetta var samþykkt samhljóða.


Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Grindavík 13. og 14. september 2002 hvetur til þess að sem fyrst verði hrint í framkvæmd nýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, m.a. varðandi stofnkostnað og meiri háttar viðhaldskostnað í framhaldsskólum og heilbrigðisstofnunum samanber yfirlýsingu ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í des í fyrra. Samþykkt samhljóða.


Áhrif skattalagabreytinga

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Grindavík 13. og 14. september 2002 beinir því til Sambands íslenskra sveitarfélaga að kannað verði til hlýtar hve mikið breytingar á lögum um einkahlutafélög skerða tekjur sveitarfélaga og teknar upp viðræður við ríkisvaldið um að sveitarfélögum verði bættur upp tekjumissirinn. Samþykkt samhljóða.


Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Grindavík 13. og 14. september 2002 beinir því til stofnaðila Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum (sveitarfélög, fyritæki, stofnanir og aðilar vinnumarkaðarins) að mörkuð verði stefna til nokkurra ára um framtíð og hlutverk stofnunarinnar. Jafnframt verði óskað eftir viðræðum við menntamálaráðherra um framtíð og skipulag kennslu á háskólastigi á Suðurnesjum, segir í ályktuninni sem var samþykkt samhljóða.


Vegur frá Stafnesi í Hafnir um Ósabotna.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Grindavík 13. og 14. september 2002 skorar á Alþingi að koma umræddri framkvæmd á vegaáætlun og tryggja fjármagn til framkvæmda á næsta ári.

Í greinargerð segir:

Mikil áhersla er lögð á framangreinda framkvæmd þar sem leyfi hefur loksins fengist til að fara um varnarsvæðið.

Vegurinn hefur mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum.
Má hér nefna neðanritað í þessu sambandi:

1. Hringtenging verður um Rosmhvalanes.
2. Vegurinn mun styrkja menningartengda ferðaþjónustu á svæðinu.
3. Vegurinn mun efla atvinnumöguleika og jafna búsetuskilyrði á svæðinu.
4. Merkar sögulegar minjar eru við ströndina og mun tilkoma vegarins bæta aðkomu að þeim.
5. Vegurinn mun auka öryggi þar sem hann bætir aðgengi slökkviliðs- og björgunaraðila um aðflugssvæði flugumferðar.
Samþykkt samhljóða.


Suðurstrandarvegur

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Grindavík 13. og 14. september 2002 tekur undir ályktun aðalfundar SASS frá 30.-31.ágúst s.l. um að hvergi verði hvikað frá áformum um lagningu Suðurstrandarvegar. Skorað er á Alþingi að tryggja fjármagn til þess að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári. Vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis styrkir allt atvinnu- og mannlíf í kjördæminu. Samþykkt samhljóða.


Ályktun um lækkun á kostnaði heimilanna vegna skulda þeirra.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Festi, Grindavík, 13. -14. september 2002 hvetur til meiri lækkunar vaxta. Vextir geta numið allt að 12% á verðtryggðum lánum til almennings. Slíkir vextir eru verulega íþyngjandi fyrir skuldsett heimili. Það eru ótvíræðir hagsmunir íbúa þessa svæðis að allra leiða verði leitað til að lækka þennan kostnað og skorar aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum því á Seðlabankann að beita sér fyrir frekari lækkun vaxta. Samþykkt samhljóða.



Ályktun um hækkun skattleysismarka

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Festi, Grindavík 13.-14. september 2002 samþykkir að skora á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir réttlátari álagningu tekjuskatts með því að frítekjumark hækki verulega og að opinber elli- og örorkulífeyrir fylgi launaþróun.
Í greinargerð segir:
Á undanförnum árum hefur skattabyrði þeirra sem hafa lág laun aukist m.a. vegna þess að raungildi skattleysismarka hefur ekki fylgt verðlagsþróun eftir að ríkisstjórnin ákvað árið 1996 að afnema vísitölubindingar skattleysismarka. Samþykkt samhljóða.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024