Aðsent

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er Heilsueflandi framhaldsskóli
Miðvikudagur 24. janúar 2018 kl. 11:09

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er Heilsueflandi framhaldsskóli

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið Heilsueflandi framhaldsskóli frá haustönn 2011 þegar það verkefni fór formlega af stað. Verkefnið byggist á forvörnum út frá  víðtæku og jákvæðu sjónarhorni og stuðlar að vellíðan nemenda og starfsfólks sem tileinkar sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl. Heilsueflandi umhverfi bætir námsárangur og líðan nemenda og dregur úr brottfalli. Aðaláherslur verkefnisins eru fjórir þættir: næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll og er eitt viðfangsefni tekið fyrir á hverju skólaári. Næring er mikilvæg fyrir alla og býður skólinn upp á fjölbreyttan og hollan mat í hádeginu fyrir nemendur og starfsfólk þar sem tillit er tekið til manneldismarkmiða Landlæknisembættisins. Hreyfing er hluti af kennslu í skólanum og geta nemendur stunda bæði íþróttir og dans.  Á síðustu önn sigraði lið skólans þrekmót framhaldsskólanna öðru sinni.

Geðrækt er hluti af verkefninu og er lögð áhersla á að bæta líðan nemenda með því að skapa jákvæðan skólabrag, og fá nemendur fræðslu um geðheilsu í Lýðheilsuáfanga. Skólinn býður upp á sálfræðiþjónustu og nemendur hafa aðgang að sálfræðingi þrjá daga í viku, sér að kostnaðarlausu. Lífsstíll er hluti af öllu starfi og hefur skólanum tekist að móta sína stefnu í forvarnarmálum sem snerta vímuefni og fræðslu um kynheilbrigði. Nánar má lesa um stefnur skólans á heimasíðu hans www.fss.is.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skólinn er jafnframt aðili að átaki um að Reykjanesbær sé heilsueflandi samfélag. Núna í ár er lögð áhersla á að bæta félagsrými nemenda og aðbúnað með því að setja af stað hönnun og vonandi byggingu á þeirri viðbyggingu sem lengi er búið að óska eftir.
Foreldrafélag FS ætlar m.a. að bjóða nemendum upp á fyrirlestur um heilsu með Loga Geirssyni núna á nýju ári og hvetjum við nemendur til að fjölmenna. 

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
formaður foreldrafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.