Fjóla Hrund Björnsdóttir í 3.sæti á lista Framsóknarflokksins
Ég, Fjóla Hrund Björnsdóttir, hef ákveðið gefa kost á mér í 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.
Ég er 24 ára gömul, fædd og uppalin á Hellu í Rangárþingi Ytra. Útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Suðurlands árið 2008 og er ég að ljúka BA námi í stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði. Starfa ég við ferðaþjónustu á Hótel Rangá með námi.
Ég hef verið virk í Framsóknarflokknum undanfarin ár. Sat í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna og var m.a. verkefnastjóri verkefnis sem hafði það að markmiði að efla fjármálalæsi ungs fólks á Íslandi. Jafnframt sit ég í stjórn Framsóknarfélagsins í Rangárþingi og miðstjórn Framsóknarflokksins.
Ég tel að stefna flokksins stuðli að stöðugum framförum og lausnum í samfélaginu. Ég legg áherslu á málefni sem snúa að ungu fólki og fjölskyldufólki. Það er mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til áhrifa innan samfélagsins og fulltrúa á Alþingi. Ég mun leggja metnað minn í að bæta stöðu ungs fólks á Íslandi. Að allir geti stundað nám óháð aldri, búsetu og efnahag. Að allir fái atvinnu við sitt hæfi. Ég legg auk þess sérstaka áherslu á heilbrigðismál. Standa ber vörð um heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni. Öflugt heilbrigðiskerfi er undirstaða velferðar.