Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fjármálaáætlun vonbrigði fyrir Suðurnesin
Föstudagur 15. júní 2018 kl. 07:00

Fjármálaáætlun vonbrigði fyrir Suðurnesin

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Áætlunin er til 5 ára eða frá 2019-2023 og sýnir markmið um tekjur og gjöld ríkissjóðs. Hún greinir einnig stöðu og horfur í efnahagsmálum og birtir okkur forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á 34 málefnasviðum.
Hér á Suðurnesjum hefur orðið fordæmalaus fólksfjölgun á fáeinum árum, sem við þekkjum öll. Þetta kallar á aukna þjónustu hjá mikilvægum stofnunum eins og Heilbrigðisstofnuninni (HSS) og lögreglunni, svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess hafa þessar sömu stofnanir ríkissins fengið um árabil lægri fjárframlög miðað við sambærilegar stofnanir á landsbyggðinni. Þetta er mikið óréttlæti og hefur skapað vanda sem verður aðeins leystur með einum hætti, leiðréttingu á fjárframlögum. Það voru því mikil vonbrigði að sjá í fjármálaáætluninni að ríkisstjórnin ætlar ekki að leiðrétta fjárframlög til Suðurnesja.

Breytingartillaga um hækkun til Suðurnesja felld
Í ljósi þess ákvað undirritaður að flytja breytingartillögu við fjármálaáætlunina. Tillagan gerir ráð fyrir samtals 700 milljón kr. aukafjárveitingu til Suðurnesja næstu 5 árin. Skiptist hún þannig: 93 milljónir kr. árlega til HSS, 40 milljónir kr. árlega til Lögreglustjórans á Suðurnesjum og 35 milljón kr. einskiptis- framlag til Fjölbrautaskóla Suðurnesja, svo ljúka megi fjármögnun við stækkun skólans. Tillagan er fjármögnuð með 7% af hreinum tekjum ríkissjóðs, vegna sölu á mannvirkjum á gamla varnarsvæðinu í gegnum Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svikin loforð
Því er skemmst frá að segja að tillagan var felld í þinginu af; Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri grænum. Þetta er í annað sinn sem undirritaður flytur tillögu á Alþingi um leiðréttingu á fjárframlögum til Suðurnesja og í annað sinn sem hún er felld. Það er orðið vel ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir eru áhugalausir um Suðurnesin og ætla greinilega ekki að leiðrétta ranglætið. Rétt er að minna á að fyrir síðustu alþingiskosningar lofaði Framsóknarflokkurinn allt að 2 milljörðum króna til Suðurnesja. Flokkurinn á nú formennsku í fjárlaganefnd.
Suðurnesjamenn stöndum saman og mótmælum óréttlætinu!

Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður og situr í fjárlaganefnd Alþingis.