Fjármál Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri RNB skrifar
Síðustu misseri hefur mönnum orðið tíðrætt um fjármál Reykjanesbæjar. Öllum er ljóst að staðan er grafalvarleg en skiptar skoðanir eru um hvort það sem gert hefur verið á undanförnum árum hafi allt verið tímabært eða hvort farið hafi verið of geyst í framkvæmdir og uppbyggingu. Mikið hefur verið fjárfest í innviðum sveitarfélagsins og vegur uppbygging atvinnu- og hafnarsvæðisins í Helguvík, ásamt umhverfismálum, þar mjög þungt.
Það er auðvelt að vera vitur eftirá en það hjálpar lítið í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í nú. Við getum aðeins breytt því hvernig við gerum hlutina í nútíð og svo auðvitað undirbúið, skipulagt og vandað okkur í framtíð.
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor samþykkti Bæjarstjórn Reykjanesbæjar einróma að láta gera faglega úttekt á fjármálum og rekstri sveitarfélagsins. Sérfræðingar KPMG og Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur og ráðgjafi, nú bæjarstjóri Hafnarfjarðar, voru ráðnir til verksins. Þeir hafa þessa dagana verið að skila inn niðurstöðum ásamt tillögum til úrbóta sem bæjaryfirvöld þurfa að fara vel yfir og taka afstöðu til. Einn hluti úttektarinnar fjallar um fjármál Reykjanesbæjar í heild sl. 12 ár en í öðrum er nánar farið yfir ákveðin svið og deildir. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar ennþá og hefur þessi vinna tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað en nú telja menn sig þó vera farna að sjá fyrir endann á henni.
Stefnt er að því að ljúka allri þessari vinnu um miðjan október. Eftir það er ætlunin að halda opinn íbúafund þar sem sérfræðingar KPMG fara yfir stöðuna og aðgerðaráætlun bæjaryfirvalda verður kynnt. Þangað til eru bæjarbúar, fjölmiðlar og aðrir hagsmuna aðilar beðnir um að sýna biðlund og skilning.
Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar