Fjárfestum í Helguvík
Í gær mælti félagi Össur fyrir frumvarpi sínu um fjárfestingasamning vegna álversins í Helguvík. Það er eitt mikilvægsta mál þingsins og liggur því til grundvallar að Norðurál nái að tryggja fjármögnun verksins. Ekkert má verða til þess að raska þessum fyrirætlunum. Nú eigum við öll að standa saman um þessa miklu framkvæmd sem kemur á besta tíma í niðursveiflu og atvinnuleysi.
Ástandið er viðkvæmt og okkur ber sem ábyrgum stjórnmálamönnum að standa saman um slíkar framkvæmdir. Iðnaðarráðherra hefur unnið mikið verk í þessu stóra máli. Því verður Alþingi að afgreiða fjárfestingasamninginn áður en þingi líkur fyrir kosningar í apríl.
Deila má um með hvaða hætti við eigum að nýta orkuna. Best er að dreifa áhættunni og byggja upp fjölbreyttan iðnað, smáan og stóran, álver og netþjónabú eða álþynnuverksmiðju. Í sátt við umhverfi og efnahag.
Nú er fátt um kosti og miklu skiptir að landa þeim verkefnum sem völ er á. Þar eru álver í Helguvík og netþjónabú á Vallarheiðinni nærtækustu verkefnin og raunhæfust.
Hefjum okkur yfir flokkadrætti og hjólför stjórnmála sem um missera skeið hafa einkennst af þrasi, flokkadráttum og deilum um keisarans skegg. Eflum atvinnustigið á landinu og stórframkvæmd í Helguvík tekur mikinn skell af mannvirkja-og þjónustugeirunum. Berjum af öllu afli gegn atvinnuleysinu og stöndum saman um uppbygginguna í Helguvík.
Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi