Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fjárfestum í fólki – það skilar árangri
Föstudagur 20. ágúst 2021 kl. 08:22

Fjárfestum í fólki – það skilar árangri

Eitt arðsamasta verkefni sem hægt er að ráðast í

Þegar nýr meirihluti tók við keflinu í Reykjanesbæ vorið 2018 var tekin ákvörðun um að auknu svigrúmi í fjármálum yrði forgangsraðað í átt að velferð í sveitarfélaginu. Slík fjárfesting skilar yfirleitt ekki ávinningi á einni nóttu, er oft ekki sýnileg og því getur komið fyrir að einhverjir hafi ekki trú á henni. En ef við setjum gleraugu hagfræðinnar á okkur, eins og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur bent á, þá blasir við okkur eitt arðsamasta verkefni sem hægt er að ráðast í.

Í Reykjanesbæ sköpuðum við tækifæri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Haustið 2019 sáðu sérfræðingar á velferðarsviði Reykjanesbæjar fræi sem varð að mikilvægu samfélagslegu samstarfsverkefni ólíkra aðila. Auk sérfræðinga í velferðarmálum hjá Reykjanesbæ kom Vinnumálastofnun að verkefninu, Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum og Hjálpræðisherinn. Þetta reynsluverkefni hefði ekki getað farið af stað nema vegna þess að styrkur fékkst upp í kostnað þess frá félagsmálaráðuneytinu að upphæð 15,3 milljónum króna. Verkefnið fékk nafnið Kjarnahópur til vellíðunar og virkni og snýr að því að styðja við íbúa af erlendum uppruna sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar að tengjast samfélaginu, læra íslensku og komast út á vinnumarkaðinn.

Skemmst er frá því að segja að mikil ánægja var meðal þátttakenda og starfsmanna með námskeiðið. Félagsleg virkni þátttakenda jókst til muna, persónuleg tengsl innan hópsins höfðu jákvæð áhrif á líðan og meirihluti þátttakenda var annað hvort kominn í vinnu eða í virkri atvinnuleit þegar námskeiðinu lauk nú í sumar. Við sjáum að það er gríðarlega mikilvægt að skapa tækifæri eins og þetta þar sem einstaklingar fá stuðning við að finna styrkleika sína og að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Virkni leiðir af sér vellíðan

Það skiptir okkur öll máli að upplifa að við tilheyrum í samfélaginu og að þar hafi allir jöfn tækifæri til að vera virkir þátttakendur. Að vera virkur er ekki bara það að stunda launaða vinnu heldur líka að hafa tækifæri til að taka þátt í samfélaginu á hvaða hátt sem einstaklingur hefur færni til. Virkni hefur gríðarlega mikil áhrif á vellíðan og því skiptir máli að þeir sem geta skapað umhverfi til að fjölga tækifærum íbúa til virkni geri það. Því vil ég að við leggjum áherslu á að halda áfram að skapa tækifæri og forgangsraða fjármagni í að fjárfesta í fólki. Hugmyndafræði Kjarnahópsins gæti orðið vísir að samvinnuverkefni þar sem t.d. Virk, Vinnumálastofnun og sveitarfélög taka höndum saman og styðja við einstaklinga sem geta nýtt sér brúarsmiði til að finna að þeir tilheyra í samfélaginu og að þeirra framlag skiptir virkilega máli. Það eykur virkni og vellíðan og það skilar árangri!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir
Skipar 4.sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi