Fjárfestum í fólki frekar en steypu
– Eysteinn Eyjólfsson skrifar
Samfylkingin setti málefni fjölskyldunnar á oddinn í kosningunum 2010. Við vildum forgangsraða í rekstri bæjarins til þess að verja fjölskyldurnar, börn og unglinga, fyrir verstu áhrifum kreppunnar. Að okkar mati var alltof langt gengið í niðurskurði í þessum málaflokki á kjörtímabilinu; Frístundaskólinn er ekki svipur hjá sjón, hvatagreiðslur voru aflagðar, ummönnunagreiðslur eru lægri hér en í nágrannasveitarfélögum og leiksskólagjöld hafa hækkað - svo eitthvað sé nefnt.
Við gerðum allt við gátum til að hnika meirihluta bæjarstjórnar í rétta átt. Lögðum m.a. ítrekað fram breytingartillögur við fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar sem gerðu ráð fyrir auknu fjármagni til barna og unglinga – t.d. til að endurvekja hvatagreiðslur - og til atvinnumála og vildum á mótiminnka mjög fjármagi til kynningarmála hjá bænum og framlög til stjórnmálaflokka. Þessar tillögur felldu sjálfstæðismenn, ítrekað.
En dropinn holar steininn. Barátta okkar skilaði ma. því að hvatagreiðslur hafa verið teknar aftur upp - en eru samt alltof lágar. Þá tókst okkur að fá meirihluta sjálfstæðismanna til að draga til baka 5% hækkun þjónustugjalda árið 2014 og komum í veg fyrir að leikskólagjöld, gjald fyrir skólamáltíðir, tónlistarskóla og frístundaskóla væru hækkuð með tilheyrandi kostnaði fyrir barnafjölskyldur bæjarins.
Þrefaldar hvatagreiðslur = hálft hringtorg
Við höfum bent á að það er hægt að létta hag fjölskyldu og barnafólks í bænum okkar með því að forgangsraða á nýjan hátt. Sem dæmi má nefna að rekstrarárin 2013 og 2014 greiðir Reykjanesbær 3-400 milljón krónum minna til EFF Við lögðum áherslu á að nýta þetta tímabundna svigrúm til að hlífa íbúum Reykjanesbæjar við gjaldskrárhækkunum sem hafa verið töluverðar undanfarin ár en ekki í minnisvarða.
Hvatagreiðslur eru nú 10.000 kr á barn sem nýttar eru til þess að styrkja íþrótta,menningar- og tómstundastarf barna. Á síðasta ári var aðeins sótt um hvatagreiðslur fyrir 42% barna á grunnskólaldri í Reykjanesbæ. Þessu þarf af breyta. Ef við þreföldum hvatagreiðslur í 30.000 kr. á barn og gerum ráð fyrir að foreldrar 60% barna á grunnskólaaldri nýti sér greiðslurnar myndi það kosta bæinn um 25 milljónir til viðbótar á ári. Helminginn af því sem Parísarhringtorgið kostaði en heildarkostnaður við torgið nam 55.542.590 kr. samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar (Vegagerðin greiðir 25 milljónir af þeirri upphæð) og um það bil jafnmikið og bæjarhliðin við Reykjanesbrautina kostuðu – svo við setjum upphæðirnar í samhengi.
Ný sýn – breyttar áherslur
Á málefnafundum Samfylkingarinnar og óháðra höfum við m.a. rætt undanfarið hvernig við getum breytt forgangsröðun til að gera hag fjölskyldna vænni og bæinn okkar betri: Brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum t.d. hækka ummönnunargreiðslur og lækka leiksskólaaldur, hækka hvatagreiðslur, efla Frístundaskóla og koma á íþróttaskóla innan hans, tryggja systkinaafslátt þvert á íþróttagreinar, efla skólastarf á öllum skólastigum og efla fjölskyldu- og félagsþjónustuna, svo eitthvað sé nefnt.
Næsta víst er að við munum breyta áherslum og fjárfesta í fólki frekar en steypu fáum við til þess brautargengi. Er ekki kominn tími á það?
Eysteinn Eyjólfsson bæjarfulltrúi
3. sæti á lista Samfylkingarinnar og óháðra