Fjárfestingaráætlun til framtíðar
Markmið fjárfestingaráætlunar sem stjórnarflokkarnir kynntu fyrir nokkru er fyrst og fremst að styðja við hagvöxt, efla innviði samfélagsins og fjölbreytni í atvinnulífi. Áætlunin er liður í fjölbreytilegum fjárfestingum í mörgum greinum og ætlað að hraða efnahagsbata og hagvöxt. Fjárfestingaráætlunin er sett fram á grunni þess að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna fjármálakerfið og að með nýjum lögum um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld fái þjóðin sanngjarna og hóflega hlutdeild af arði sjávarauðlinda.
Fjárfestingaráætlunin byggir á þeim grunni að í núverandi efnahagsumhverfi sé skynsamlegt að umtalsverðum hluta þeirra fjármuna sem bundnir hafa verið í bönkum og hluti auðlindagjalda sé best varið með því að fjárfesta með skipulögðum og markvissum hætti í innviðum samfélagsins. Þannig styrkist undirstaða hagvaxtar og tekjugrunnur ríkissjóðs til framtíðar.
Þetta er það sem félagslega sinnuð stjórnvöld hafa farið í gegnum tíðina og er oft kennt við Nýja samninginn hjá Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta á þriðja og fjórða áratug 20. aldarinnar. Með því að ráðast í fjölbreytilegar fjárfestingar í samfélaginu öllu sneri hann slaka og samdrætti í mestu efnhagskreppu síðari tíma í sókn og uppbyggingu á máttugu velferðarsamfélagi. Samfélag sem stóð sterkt þar til nýfrjálshyggjumenn undir forystu repúblíkana á níunda áratugnum molaði þá samfélagsgerð innan frá með hömlulausri einkavæðingu og skattalækkunum á þá ríku og betur stæðu.
Nýr Herjólfur, Suðurlandsvegur og Leifsstöð
Í fjárfestingarplaninu er komið víða við og snertir það alla landshluta og fjölmargar greinar. Ekki síst þær sem flokkast undir grænt hagkerfi, ferðaþjónustu og kvikmyndagerð. Þá er myndarlegum skerf varið til samgönguframkvæmda og mannvirkjagerðar.
Til að mynda smíði á nýjum Herjólfi, uppbyggingu leiguíbúða og viðbyggingu við Leifsstöð og Keflavíkurflugvöll. Með þessum hætti er verið að flýta uppbyggingu mikilvægra verkefna sem hafa mikið samfélagslegt gildi og skila miklu af sér og hratt.
Þá er óskiptum potti varið til að flýta gerð samgöngumannvirkja sem samgöngunefnd þingsins er gert að skipta. Mikilvæg mál á borð við breikkun Suðurlandsvegar eru þar efst á blaði enda arðbærasta samgönguframkvæmd á landinu öllu. Breikkun vegarins skiptir miklu máli bæði í byggðalegu samhengi og umferðaröryggislegu. Því er mikilvægt að halda hratt áfram að skilja á milli akreina þessa fjölfarna og umferðarþunga vegar.
Í heild sinni eykur áætlunin landsframleiðslu um ríflega 2,5% á ári og atvinnuleysi gengur hraðar niður en ella. Þau auknu efnahagsumsvif sem felast í þessari áætlun munu auka skatttekjur og draga úr kostnaði vegna atvinnuleysis svo milljörðum skiptir. Áætlað er að ríkissjóður fái aukna skatttekjur sem gætu numið um 17 milljörðum króna á þremur árum og sparað 2-3 milljarða vegna minna atvinnuleysis. Því er ástæða til þess að fagna gerð þessarar áætlunar um framtíðarfjárfestingar í innviðum landsins sem rís nú hratt úr stuttu skeiði samdráttar og erfiðleika.