Fjárfestingaráætlun – hagfelld, skapandi og græn
Síðastliðið vor var fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar kynnt. Markmiðin með henni eru margþætt en fyrst og fremst er henni ætlað að sporna gegn atvinnuleysi og stuðla að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu sem um leið hefur jákvæð áhrif á hagvöxt. Fjárfestingaráætlunin er fjármögnuð með nýju veiðileyfagjaldi og arði af eignarhlutum í bönkunum.
Í fjárlagafrumvarpinu sem ég mælti fyrir í september sl. er upphæð veiðileyfagjaldsins að finna en tilgreint að áætlaður arður af eignarhlutum í bönkunum kæmi með breytingartillögum við 2. umræðu fjárlaga þar sem óljóst væri hversu miklar tekjur fengjust vegna arðgreiðslna. Nú er niðurstaðan fengin og ljóst að fjárfest verður fyrir 4,2 milljarða króna sem koma með veiðileyfagjaldi og fyrir 6,1 milljarð króna sem koma með arði frá bönkunum.
Helstu verkefnin eru miklar samgöngubætur á landsbyggðinni ásamt nýrri Vestmannaeyjaferju og rannsóknum og framkvæmdum við Landeyjarhöfn, fangelsi á Hólmsheiði og myndarlegur stuðningur við húsafriðun. Hús íslenskra fræða rís í Reykjavík og umtalsverðir fjármunir verða veittir til uppbyggingar ferðamannastaða og innviða þjóðgarða og friðlýstra svæða. Kirkjubæjarstofa verður byggð og hefst bygging hennar á næsta ári og sóknaráætlun landshluta efld. Viðhaldsverkefnum á byggingum í eigu ríkisins verður fjölgað. Öll þessi verk skipta verulegu máli fyrir byggðirnar sem þeirra munu njóta og styrkja innviði samfélagsins svo um munar.
Með fjárfestingaráætluninni er háskóla- og atvinnulíf framtíðarinnar jafnframt stóreflt með auknu fé til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs ásamt sérstökum áhersluviðmiðum stjórnvalda í vísinda- og atvinnumálum. Græna hagkerfið verður styrkt og einnig skapandi greinar, s.s. Kvikmyndasjóður og verkefnasjóðir fyrir myndlist, bókmenntir, hönnun og tónlist. Einnig verða teknar upp endurgreiðslur kostnaðar fyrirtækja vegna fjárfestinga, rannsóknar og þróunar sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi þeirra og stuðlað er að vistvænum innkaupum.
Vegna skuldsetningar hefur ríkissjóður ekki getað ráðist í fjárfestingar svo heitið geti eftir hrun. Nú þegar færi gefst með arði af náttúruauðlindum og eignarhlutum í bönkum er ráðist í verk sem styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Fjárfestingaráætlunin er liður í nýrri sókn fram á veginn eftir efnahagsáfallið. Hún er metnaðarfull og framsækin, skapandi og græn.
Oddný G. Harðardóttir
þingflokksformaður Samfylkingarinnar