Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fjarar undan hugarfóstri í Helguvík
Miðvikudagur 17. febrúar 2010 kl. 04:28

Fjarar undan hugarfóstri í Helguvík

Það fjarar enn undan draumaverksmiðjunni í Helguvík. Það þarf mikla og ódýra orku til að bræða ál og nokkuð ljóst að hún er ekki á boðstólum í bráð. Nú hefur Orkuveita Reykjavíkur ráðstafað orku frá fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun til kísilverksmiðju í Þorlákshöfn, en til þessa hefur verið talað um að hún færi í Helguvík.


Nú þegar er tekin meiri jarðgufa úr jörð í Svartsengi og á Reykjanesi en staðist fæst til lengdar og ólíklegt að þar verði leyft að stækka jafnvel þótt HS-Orku tækist að krækja í fjármagn. Alls er óvíst hvort hægt verði að virkja á Krýsuvíkursvæðinu á næstu árum. Búið er að ráðstafa raforkunni frá fyrirhugaðri Búðarhálsvirkjun í Þjórsá til stækkunnar í Straumsvík og nær óhugsandi að leyfi fáist til að þurrka upp neðri hluta Þjórsár til að fóðra álver í Helguvík. Það stefnir í að það verði frekar lítil raforka til að flytja eftir nýju, öflugu og dýru raflínunum sem nú hafa fengist öll leyfi fyrir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það hjálpar lítið að hafa grafið og rótað til moldinni við Helguvík og steypt nokkrra sökkla ef engin fæst orkan, höfnin er of lítil og fjármagn takmarkað. Þúsundir starfa í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar verða þá lítið annað en hugarburður og stílæfingar bæjaryfirvalda.


Þessi verksmiðja er rugl frá upphafi. Það var ruðst af stað með frekju án tilskilinna leyfa í von um að eftirlitsaðilar svæfu álíka vært og þeir sem áttu að fylgjast með bönkunum. Menn hafa talað orku upp úr jörðinni með líkum hætti og Sölvi Helgason taldi sig geta reiknað barn í konu.
Það versta við þessa Helguvíkurdraumóra er að þeir þvælast fyrir annarri og raunhæfari atvinnusköpun. Sú raforka sem tekst að virkja á næstunni er miklu betur komin í gagnaver en álver og í framleiðslu eldsneytis á bíla- og á skipaflotann svo eitthvað sé nefnt.


Starf í Álveri er það dýrasta sem völ er á, hvort sem litið er til fjármagns eða orkuþarfar og meirihluti arðs af álbræðslu fer úr landi. Vilji menn fjölga störfum er allt betra en álver.

Í Víkufréttum í gær er bjánaleg “frétt” undir fyrirsögninni: Álver í Helguvík myndi skila nær sexföldum útflutningstekjum loðnu á hverju ári . Í fyrsta lagi er álver í Helguvík bara draumórar. Þó svo það væri raunhæft þá verður tvöfalt meira af því sem fæst fyrir loðnuafla eftir í landinu samanborið við ál. Svo er loðnuaflinn í ár með því allra minnsta sem verið hefur undanfarin ár. En þessi takmarkaði loðnuafli er þó fastur í hendi sem er meira en sagt verður um tekjur af álveri í Helguvík.


Það er ágæt að láta sig dreyma en bágt að byggja tilveru sína á draumórum – og afleitt þegar forysta stórra sveitarfélaga tekur upp á því.


Þorvaldur Örn Árnason
Vogum