FISKTÆKNINÁM – nýr kostur í framhaldsmenntun fyrir ungt fólk að loknum grunnskóla á Suðurnesjum
Nám í skóla – nám á vinnustað
Fisktækniskóli Suðurnesja býður upp á fjölbreytt nám á sviði veiða (hásetanám), fiskvinnslu og fiskeldis á framhaldsskólastigi. Skólinn er í eigu aðila vinnumarkaðar, fræðsluaðila og sveitarfélaga á Suðurnesjum og starfar samkvæmt sérstökum samningi við Menntamálaráðuneytið. Námið er hagnýtt tveggja ára nám þar sem önnur hver önn er í skóla og hin fer fram í formi vinnustaðanáms þar sem nemendum er fylgt mjög vel eftir og þeir læra störfin af reynslumiklu fólki sem er starfandi úti í greininni. Þessi blanda verklegs og bóklegs náms hentar mörgum vel og teljum við það mikilvægt að bjóða nemendum okkar upp á þann kost. Jafnframt fá þeir tækifæri til að mynda góðar tengingar út í atvinnulífið á meðan á náminu stendur auk þess að búa sig undir frekara nám.
Á fiskvinnslubraut læra nemendur um meðferð fisks, gæðakerfi, um vélar (t.d. Baader), tæki og búnað sem notaður er til að hámarka gæði og verðmæti fisks. Á sjómennskubraut læra nemendur vélavörslu, aflameðferð, veiðitækni og sjóvinnu ásamt ýmsu fleiru. Á fiskeldisbraut sérhæfa nemendur sig til almennra starfa í fiskeldi og búa sig undir frekara nám hérlendis eða við samstarfsskóla okkar, m.a. í Noregi. Í undirbúningi er sérhæft nám fyrir gæðastörf (3ja ár) og áformað er að bjóða upp á sérstakt nám fyrir sjókokka.
Framhaldsskólapróf - góður valkostur fyrir þá sem lokið hafa grunnskóla
Framhaldsskólapróf er góður valkostur fyrir þá sem hafa lokið grunnskóla og nýtist sem undirbúningur fyrir frekara nám, s.s. í skipstjórn og vélstjórn eða á bóklegum brautum. Allir nemendur taka smáskipapróf (>12m), læra vélstjórn (750kw) og eiga kosta á að taka kjarnafögin (íslensku, ensku, stærðfræði) hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja á því stigi sem hentar hverjum og einum. Nemendur Fisktækniskólans njóta þjónustu Fjölbrautaskóla Suðurnesja jafnt á við aðra nemendur og geta verið meðlimir í nemendafélaginu ef þeir óska svo, en njóta að auki þess nána samfélags og sterku félagsheildar sem Fisktækniskólinn leggur mikla áherslu á. Náminu lýkur með framhaldsskólaprófi, en faggreinar nýtast einnig þeim sem hyggja á langskólanám s.s. sjávarútvegsnám á háskólastigi.
Skólinn er lítill og gefur starfsmönnum og kennurum kost á að mynda góð tengsl við nemendur og aðstoða þá eins og kostur er við námið. Eftirfylgni er mikil og áhersla lögð á góðan félagsanda í skólanum. Kennslan er skipulögð með þeim hætti að mæta þörfum hvers og eins og lögð áhersla á þægilegt vinnuumhverfi þar sem hver og einn getur náð hámarks árangri.
Góður undirbúningur fyrir þá sem vilja komast í góð störf í vaxandi atvinnugrein
Þá er skólinn í afar góðum tengslum við atvinnulífið og stofnanir innan sjávarútvegs og rannsókna. Nemendur skólans fá strax á annarri önn vinnustaðaþjálfun í samræmi við áhuga og áherslusvið s.s. í vinnslu og á sjó, í fiskeldisfyrirtækjum, rannsóknarstofum og fiskmörkuðum, á skipum Landhelgisgæslunnar og Hafrannsóknarstofnunar svo eitthvað sé nefnt. Fjöldi nemenda okkar hefur fengið vel launaða vinnu í sinni grein að námi loknu og aðrir farið til frekara náms.
Það eru mörg spennandi tækifæri í sjávarútveginum um þessar mundir. Fiskur er orðinn lúxusvara og mikil áhersla er lögð á gæði og þekkingu starfsmanna til framleiðslunnar, hvort sem er á sjó eða landi. Menntun í þessu fagi gefur möguleika á störfum sem gefa vel af sér bæði í landi og á sjó.
Fisktækniskólinn býður einnig upp á nám í netagerð sem er löggild iðngrein
Skólinn er sá eini á landinu sem býður upp á nám í netagerð (veiðafæratækni). Námið er löggild iðngrein og skólinn sér um kennslu í faggreinum og verklegum greinum, en nemendur fara síðan á samning hjá meistara. Almennar bóklegar greinar brautarinnar geta nemendur tekið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja (sem er samstarfsskólinn), öðrum framhaldsskólum, fjarnámi eða viðurkenndum símenntunarmiðstöðvum s.s. hjá MSS.
Valkostur fyrir þá sem eldri eru og hafa reynslu af vinnumarkaði – mat á raunfærni
Nemendur með mikla starfsreynslu geta stytt nám sitt umtalsvert og fengið reynslu sína metna til fullgildra eininga. Við leggjum áherslu á að mæta nemendum þar sem þeir eru og skipuleggjum námið við hæfi hvers og eins. Reynslu af sjómennsku og störfum í fiskvinnslu má meta sem allt að helmingi grunnnámsins, sem samsvarar einu ári í framhaldsskólanámi. Kennsla faggreina er skipulögð til að mæta þörfum fullorðinna.
Spennandi valkostur í haust - Akstur til og frá skóla
Menntamálaráðuneytið hefur heimilað að skólinn geti innritað nemendur sem ljúka grunnskóla nú í haust og gert er ráð fyrir því að allar bóklegar greinar, fyrir þá sem þess óska, fari fram í Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir hádegi á haustönninni. Nemendur utan Reykjanesbæjar fara þannig með skólabílnum með öðrum nemendum FS og njóta þjónustu þar í samræmi við óskir og þarfir auk þess sem Fisktækniskólinn heldur sérstaklega utan um allan hópinn. Verklegar greinar og fagbóklegt nám fer síðan fram í Grindavík og verða nemendur keyrðir frá FS um hádegi. Nemendur sem hafa lokið grunnáföngum í íslensku, ensku og stærðfræði eða vilja frekar byrja á faggreinum og í verklegu námi og taka almennar bóklegar greinar síðar mæta til kennslu í Grindavík og geta setið með í skólabílnum.
Kynning í grunnskólum
Í undirbúningi er kynning á þessu nýja námsframboði í öllum grunnskólum á Suðurnesjum og stefnir skólinn á að kynna námið fyrir bæði kennurum, nemendum og foreldrum. Fisktækniskólinn tekur þátt í kynningu á námi fyrir grunnskóla á Suðurnesjum í mars nk., en starfsfólki skólans er ljúft að svara öllum spurningum varðandi alla þætti námsins og þarf þá einungis að hafa samband við skrifstofu skólans (sími 412 5965) eða senda póst á [email protected] og [email protected]. Ýmsar upplýsingar má einnig finna á heimasíðu hans www.fiskt.is.
Innritun í skólann í haust fer fram samhliða almennri innritun í framhaldsskóla nú á vordögum, en áhugasamir eru hvattir til að hafa einnig samband við skólann og skrá sig þar sem ekki er gert ráð fyrir því að hefja nám með fleiri en 12-14 nemendur á haustönn.