Fiskistofa gegn Saltveri
Síðdegis föstudaginn 1. apríl birtist skyndilega yfir 20 manna hópur einkennisklæddra manna á vegum Fiskistofu ásamt lögreglu á skrifstofu Saltvers, heimilum eigenda og stjórnenda og um borð í netabáti fyrirtækisins sem var að leggja að bryggju með þorskafla dagsins. Lagt var hald á bókhald og tölvur gerðar upptækar, bæði fyrirtækis og einkatölvur. Einnig var lagt hald á merkt heimilisbókhald auk skipsdagbóka og annarra gagna úr bátnum. Kæligeymslur voru innsiglaðar og starfsfólk yfirheyrt. Ástæðan var rannsókn á nýtingu sjávarafla hjá Saltveri. Var þetta vægast sagt mjög óþægileg lífsreynsla sem líður seint eða aldrei úr minni.
Langur tími
Daginn eftir var tekið eitt sýni úr óunnum afla frá deginum áður. Þrjátíu og tveimur mánuðum (!) síðar felldi Fiskistofa úrskurð sinn á grundvelli þessa eina sýnis, hinn 1. mars 2013, og sektaði Saltver um tæpar 33 milljónir króna sem fyrirtækinu var gert að greiða án tafar. Ástæðan var það mat stofnunarinnar að fyrirtækið hefði meðhöndlað 93 tonn af sjávarafla sem ekki hefði verið löglega veginn og skráður á 15 mánaða tímabili. Saltver kærði þegar ákvörðunina til úrskurðarnefndar, enda hafði fyrirtækið undir höndum niðurstöður úr nýtingarprufum frá óháðum sérfræðifyrirtækjum á þessu sviði, Matís ohf. og Sýni ehf. sem voru í engu samræmi við niðurstöðu í nýtingarprufu Fiskistofu.
Málið fellt niður
Á meðferðartímabilinu, áður en Fiskistofa felldi úrskurð sinn, var niðurstöðum Matíss og Sýnis komið á framfæri við Fiskistofu en hún kaus að hafa þær að engu. Eftir skoðun úrskurðarnefndar á málsgögnum tók það hana aðeins nokkra daga að úrskurða að málið skyldi fellt niður, þar sem það væri »ekki hafið yfir allan vafa að nýtingarprufa sem gerð var af starfmönnum Fiskistofu hinn 2. apríl 2011 gefi nákvæma mynd af meðalnýtingu í fiskvinnslu Saltvers«. Eftir standa þó alvarlegar ásakanir um brot á landslögum og atvinnurógur í garð fyrirtækisins og starfsfólks þess.
Rannsókn á fiski í dauðastirðnun
Allir vita sem til þekkja í sjávarútvegi að nýting þorsks er breytileg eftir árstíma, er allt frá um 49 prósentum og upp í 54%. Í nýtingarrannsókninni var nýtingarhlutfallið 49,25%. Hefði það verið 50% eða hærra hefði málinu lokið án eftirkasta. Sýnið var tekið á þeim árstíma þegar þorskurinn er að hrygna eða ljúka hrygningu. Þá er líkamlegt ástand hans hvað lélegast, fiskurinn magur, fituinnihald lítið og fiskurinn viðkvæmur fyrir hnjaski. Þrátt fyrir þetta er nýtingarhlutfallið 49,25% innan eðlilegra og þekktra marka. Nærtækara og eðlilegra hefði þó verið að taka fleiri sýni eins og tíðkast við fagleg vinnubrögð færustu sérfræðinga. Í kjölfar niðurstöðu Fiskistofu leitaði Saltver til Matíss og Sýnis þar sem beðið var um sýnatökur og nýtingarrannsóknir í samræmi við vinnsluaðferðir Saltvers. Niðurstaða Matíss var að sýnataka og mælingar Fiskistofu hefðu farið fram í apríl þegar hráefnið er viðkvæmt fyrir söltun vegna hrygningartímabilsins. Jafnframt að Fiskistofa hefði notað of ferskt hráefni og að fiskurinn hefði verið enn í dauðastirðnun. Hjá Saltveri fer vinnsla aldrei fram meðan fiskur er í dauðastirðnun.
Tvær nýtingarrannsóknir
Sýni framkvæmdi tvær nýtingarrannsóknir í samræmi við vinnsluaðferðir Saltvers. Í fyrri tilrauninni var nýtingarhlutfallið 53,3% og 51%, í þeirri síðari. Af þessu má draga þá ályktun að rannsókn Fiskistofu hafi ekki getað verið í samræmi við vinnsluaðferðir Saltvers. Mælingarnar leiddu jafnframt í ljós ákveðna nýtingu á þeim árstíma sem tilraunir voru framkvæmdar. Það var mat Sýnis að gera þyrfti fleiri nýtingarprufur til að fá vísbendingar um nýtingu í vinnsluhúsum, en kunnugir vita að hún breytist milli mánaða og ára og margir þættir hafa þar áhrif. Þeim sem vinna við rannsóknir á nýtingu fiskafurða er ljóst fiskur í dauðastirðnun nýtist verr heldur sá sem verkaður er annaðhvort fyrir eða eftir dauðastirðnun.
Ekki sannleikanum samkvæmt
Fiskistofa segir framkvæmd sýnatöku og rannsóknar stofnunarinnar á nýtingarhlutfalli hafa verið framkvæmda í samræmi við vinnsluaðferðir Saltvers. Það er alrangt. Enginn hjá Saltveri hafði neitt með framkvæmdina að gera. Að mati færustu sérfræðinga á nýtingu þorsks er 49,25 prósenta nýting aðeins möguleg ef þekking á kjöraðstæðum lélegrar nýtingar er höfð að leiðarljósi við nýtingartilraun, þar er, ef valinn er fiskur í aprílmánuði í dauðastirðnun til rannsóknar.
Ósk um bætt vinnubrögð
Alræði Fiskistofu er algert og Saltver gat ekkert gert nema lúta þeirra valdi með alvarlegar ásakanar um brot á landslögum og atvinnuróg í garð fyrirtækisins og starfsfólki þess á herðunum. Það verður að gera þá kröfu til opinberra eftirlitsstofnana að þær ræki hlutverk sitt þannig að fagleg vinnubrögð þeirra séu hafin yfir allan vafa. Að mínu mati var svo alls ekki í þessu máli. Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem hafa liðsinnt okkur meðan á málinu stóð, ekki síst starfsfólkinu og öðrum sem vitað hafa allan tímann að aðgerðir Fiskistofu voru tilefnislausar og illa ígrundaðar.
Þorsteinn Erlingsson
framkvæmdastjóri og eigandi Saltvers