Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Fimmtudagsvals: Leyndarmál í vestri
Laugardagur 4. febrúar 2012 kl. 10:52

Fimmtudagsvals: Leyndarmál í vestri

Þessa stundina er ég staddur í henni stóru Ameríku. Get ekki sagt að hún heilli mig sérstaklega, en mikið djöfull er hún stór. Hér er líka allt stórt. Smáa hluti færðu eiginlega ekki, nema leita vel. Það var svo sem ekki tilgangur ferðarinnar, að leita að einhverju smáu, heldur öðru. Finna leyndarmálið að svolitlu, sem ég get ekki sagt ykkur frá. Lak því reyndar heima fyrir, svo ég færi með friði. Indíánarnir reyktu jafnan friðarpípu til að ganga frá slíku, ég lét mér nægja að setja upp gamalkunnan svip, sem aldrei svíkur.

Hér er líka allt önnur menning, sem við Evrópubúar könnumst við en brúkum að minnsta kosti minna. Sífellt verið að þakka manni fyrir að vera til. Vinsamlega komdu aftur. Þakkir fyrir viðskiptin. Skiptir ekki máli þó þú kaupir þér kaffibolla, þér líður eins og lávarði á Laugaveginum. Þér er þakkað innilega fyrir komuna á Starbuck‘s og boðinn hjartanlega velkominn aftur. Ég mátti líka segja vinum mínum og ættingjum frá þeim. Já, já, þetta var nú bara kaffibolli! Róa sig!

En nú er ég sem sagt kominn á kaf í viðskipti, sem landanum mun líka. Ég lofa því! Kallinn kominn á kreik og nú er bara að velja réttu græjurnar. Lendar, læri, mál og vog. Ilmur, angan, útlit, fas. Eruð þið nokkru nær? Ekki ég. Þetta er allt of mikið fyrir skrifstofublókina. Hér er allt of mikið til, allt of mikið að velja, allt of mikið af öllu. Held þó að þetta sé allt á réttri leið. Kemur allt í ljós. Allsherjar dulúð yfir þessu öllu!

Verð þó að viðurkenna, að ég mun læra mikið af þessari ferð. Kaninn alltaf samur við sig. Kann að hantera hlutina betur en við. Allt niðurneglt í bókum og fræðum, sem gera þarf. Búinn að greina manneskjuna út í hörgul. Hvernig við bregðumst við áreiti í sölumennsku, hvernig við viljum versla og hvað hugurinn girnist. Saklausi sveitapilturinn úr víkinni getur ekki annað en hrifist. Velti því þó fyrir mér, að sennilega er ég best geymdur heima.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með kveðju frá USA,

Valur Ketilsson.