Aðsent

Fíllinn og fjarkinn
Mánudagur 8. febrúar 2016 kl. 06:00

Fíllinn og fjarkinn

Flestir vilja eignast eigið húsnæði á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. En það mun alltaf vera til sá hópur sem getur ekki eða vill ekki eiga húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er í dag, bæði hvað varðar kaup og leigu ómögulegur. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstíga í ályktunum sínum að nauðsynlegt sé að bæta húsnæðiskerfið. Auk þess samþykkti Alþingi  þingsályktun sumarið 2013 um aðgerðaáætlun í tíu liðum. Samkvæmt henni átti að taka á skuldavanda heimila, með því að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og opna tækifæri til að nýta séreignasparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Áætlunin kveður einnig á um að auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.  Markmið ríkisstjórnarflokkanna eru skýr. Við ætlum að bæta hag heimila landsins. Ekki bara húseigenda, heldur allra heimila. Við gleypum ekki fílinn í heilu lagi, en við erum svo sannarlega byrjuð.

  •  

Öruggt húsnæði fyrir alla

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Umfangsmikið samráð var haft við hagsmunaaðila þegar frumvörpin fjögur um húsnæðismál voru unnin. Þar sem grunnur þeirra er vandaður þá er mjög líklegt að góð samstaða náist um afgreiðslu þeirra á Alþingi. Velferðarnefnd hefur þau nú til meðferðar og sú vinna gengur vel. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

   •    Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20-25% af tekjum. Með auknu framboði og breyttu fjármögnunarformi, lækkar leiguverð.

   •    Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.

   •    Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög (sbr. Búseti og Búmenn). Markmið þess er að styrkja  rekstur húsnæðissamvinnufélaga, gagnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á íbúalýðræði innan félaganna.

   •    Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Næstu skref

Í framhaldi af þessari vinnu við ofangreind frumvörp þarf að taka á verðtryggingunni og endurskoða fjármálakerfið í heild sinni, með neytendavernd og gagnsæi í huga. Með það að markmiði að fólk geti eignast húsnæði á sanngjörnum kjörum. Horfa þarf til þess að fjölga hvötum til sparnaðar og endurskoða þau skilyrði sem sett eru fram um greiðslumat. Sú vinna er hafin í efnahags – og viðskiptanefnd þingsins.
 

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins og fulltrúi í Velferðarnefnd