Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Festi mun ávallt vera í Grindavík
Föstudagur 3. ágúst 2012 kl. 08:49

Festi mun ávallt vera í Grindavík

Bryndís Gunnlaugsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Grindavík og forseti bæjarstjórnar skrifar.

 


Fyrr í vikunni fór ég yfir nokkrar staðreyndir á sölunni á Víkurbraut 58 ehf. en í þessari grein mun ég fara yfir röksemdir fyrir því að selja Víkurbraut 58 ehf. sem á fasteignina Festi í staðinn fyrir að bæjarfélagið geri upp húsnæðið og reki það í framtíðinni. Bæjarstjórn Grindavíkur hefur rætt um Festi frá upphafi þessa kjörtímabils. Farið varið yfir allar þær hugmyndir sem komið hafa upp varðandi það hvaða stofnanir væri hægt að setja í Festi enda voru allir sammála því að ekki væri hægt að gera upp Festi nema einhver stofnun væri þar innanhús. En þegar stofnun er valið húsnæði, þá verða þarfir stofnunarinnar að ganga fyrir. Það er röng aðferðarfræði að setja stofnun inn í Festi bara til að hafa „eitthvað“ í því húsi ef niðurstaðan verður sú að húsnæðið þjónar ekki stofnuninni og þeirri þjónustu er hún á að veita.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bókun B-, G- og S-lista.

Fulltrúar B-, G- og S-lista bókuðu eftirfarandi þegar samþykkt var að selja Víkurbraut 58 ehf. (einkahlutafélag er á Festi)


„Á síðustu tveimur árum hefur verið unnið vel og faglega að því að fara yfir húsnæðisþörf stofnana sem þurfa nýtt húsnæði. Bæjarstjórn hefur samþykkt að sameina bókasafn bæjarins og bókasafn Grunnskóla Grindavíkur við grunnskólann við Ásabraut. Var þetta samþykkt samhljóða í bæjarstjórn, meðal annars af fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan fyrir þessari sameiningu er sú að með því að sameina bókasöfnin er hægt að fá betra bókasafn sem væri bænum til sóma. Nauðsynlegt er að hafa það bókasafn við grunnskólann við Ásabraut enda er þar bróðurpartur grunnskólanemenda í Grindavík og auðveldara að mæta þörf 1.-3.bekkjar sem er í Hópskóla á annan hátt. Bókasafn staðsett í Festi myndi ávallt þýða að starfrækja þyrfti síðan annað bókasafn við Grunnskóla Grindavíkur við Ásabraut. Mat okkar er að betra sé að hafa eitt gott bókasafn við grunnskólann við Ásabraut þar sem fermetrar nýtast betur og fjármunir fara frekar í aukin bókakaup og þjónustu en steypu.


Varðandi tónlistarskólann þá var farið vel yfir hvernig kennslu er háttað í dag. Nemendur Hópskóla fá kennslu í þeim skóla og mætir tónlistarkennari til þeirra þegar kennt er í hóptímum. Nemendur Hópskóla sem eru í einkakennslu eru ekki í tímum meðan almenn kennsla á sér stað. Nemendur 4.-10.bekkjar sem eru í grunnskólanum við Ásabraut hafa hins vegar verið að fara úr tímum hjá grunnskólanum yfir í tónlistarkennslu. Með því að hafa tónlistarskólann við grunnskólann við Ásabraut er því hægt að nýta húsnæði tónlistarskólans til kennslu betur yfir daginn meðan kennsla í skólanum á sér stað auk þess sem tónlistarskólinn getur nýtt sér húsnæði grunnskólans þegar kennslu líkur þar. Slík samlegðaráhrif myndu ekki eiga sér stað ef tónlistarskólinn væri í Festi. Þá yrði mest öll kennsla að eiga sér stað eftir að skóla líkur og tónlistarskólinn gæti ekki nýtt sér aðstöðu grunnskólans, svo sem myndarlegan sal sem þar er. Var því talið mjög skynsamlegt að hafa tónlistarskólann við grunnskólann við Ásabraut til að fá sem besta nýtingu á húsnæði bæði tónlistarskólans og grunnskólans. Hefur þetta verið samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.


Einnig hefur verið nefnt að Þruman ætti vel heima í Festi. Niðurstaða ungmennaráðs Grindavíkur var að hentugast væri að hafa Þrumuna við Grunnskólann, meðal annars vegna þess að þá hefði Þruman aðgang að smíðastofum, tölvustofum og hannyrðastofu svo eitthvað sé nefnt. Einnig þótti tilvalið að flytja Þrumuna þangað þar sem bókasafnið og tónlistarskólinn mun færast þangað og vonandi getur þá myndast gott samstarf milli þessara stofnana, t.d. að veita nemendum á unglingastigi aðgang að hljóðveri tónlistarskólans svo eitthvað sé nefnt.


Eftir stendur því hvort flytja eigi stjórnsýsluna í Festi. Stjórnsýslan er í hentugu húsnæði í dag og eyddi síðasta bæjarstjórn tugum milljóna í að gera upp núverandi húsnæði. Myndi kostnaður stjórnsýslunnar vegna húsnæðis aukast við flutning yfir í Festi og stjórnsýslan þarf ekki svo stórt húsnæði né svo stóran sal. Væri því aðeins kostnaðarauki við slíka flutning, kostnaðarauki sem myndi ekki skila sér í betri þjónustu til bæjarbúa.“


Er réttlætanlegt að auka rekstrarkostnað stjórnsýslunnar?

Í ljósi þess að það þjónar ekki hagsmunum bókasafnsins, tónlistarskólans né Þrumunar að færa þær stofnanir í Festi stendur eftir aðeins ein stofnun, og það er stjórnsýslan. Það getur verið auðvelt að finna peninga til að gera upp húsnæði eða byggja nýtt á kostnað bæjarfélags, sérstaklega í bæjarfélagi sem á mikla peninga í svokölluðum hitaveitusjóði. Það getur einnig verið auðvelt fyrir stjórnmálamenn að fara í slíkar framkvæmdir til að tryggja endurkjör. En þegar húsnæði hefur verið gert upp þá þarf að reka húsnæðið og kostnaðurinn við þann rekstur mun leggjast ofan á þá stofnun sem er í húsnæðinu og vera greiddur af útsvari Grindvíkinga. Stjórnsýslan er núna í góðu húsnæði sem gert var upp á síðasta kjörtímabili fyrir 46,9 milljónir króna. Húsnæði þar sem kostnaður við þrif á sameign og snjómokstur er deilt með öðrum eigendum húsnæðisins. Aukinn rekstrarkostnaður mun því vera gífurlegur ef stjórnsýsla bæjarins er færð yfir í Festi, ekki aðeins því húsnæðið er stærra heldur einnig því allur kostnaður við þrif, snjómokstur og fleira er nú er greitt af sameign mun leggjast eingöngu á bæjarfélagið.


Þeir bæjarfulltrúar er kusu með því að selja Festi gerðu slíkt þar sem það var þeirra einlæga trú að fjármunum bæjarins er betur varið í að byggja upp húsnæði sem þörf er fyrir í bæjarfélaginu, húsnæði sem mun skila sér í betri þjónustu til bæjarbúa. Stefnt er að því á næstu tveimur árum að stækka íþróttahúsið og byggja sameiginlega aðstöðu fyrir sundlaug, íþróttahús og knattspyrnusvæðið. Þessi framkvæmd mun skila því að tímafjöldi í íþróttahúsinu  mun aukast um þriðjung, gólfíþróttir munu fá sérstakt æfingasvæði, svæði undir líkamsræktarstöð og möguleikar fyrir almenningsíþróttir munu verða mun betri, byggt verður félagsheimili fyrir íþróttahreyfinguna ásamt því sem Kvenfélag Grindavíkur og UMFG fær skrifstofuaðstöðu. Einnig verður hagræði í rekstri mun betra því starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar er allt á einum stað. Að auki verður minni salur í byggingunni líkt og tíðkast á öllum íþróttasvæðum í dag, salur sem nýtast íþróttahreyfingunni og Kvenfélagi Grindavíkur í þeirra starfi. Síðan á að kaupa nauðsynlegan búnað svo hægt sé að breyta íþróttasalnum í glæsilegan veislusal líkt og hægt er t.d. í Valsheimilinu. Þá er búið að mæta þörf íþróttahreyfingarinnar fyrir almennilega aðstöðu líkt og tíðkast annars staðar auk þess sem hægt er að halda yfir 400 manna veislur á einfaldan og ódýran hátt í íþróttahúsinu. Mun því íþróttahúsið og íþróttamiðstöðin geta sinnt því hlutverki er Festi gerði áður að einhverju leyti.


Veljum betri þjónustu og/eða lægri álögur á íbúa

Í ljósi þess að bæjarfélagið hefur ekki þörf fyrir Festi er skynsamlegt að bæjarfélagið stígi til hliðar og leyfa einkaframtakinu að taka við og byggja upp Festi á ný svo sómi sé að. Búið er að skrifa undir kaupsamning en forsenda fyrir honum er sú að til sé fjármagn til að gera upp húsnæðið sem fyrst. Festi mun ávallt eiga stað í hjarta Grindvíkinga. Festi verður áfram í Grindavík og mun halda áfram að þjónusta Grindvíkinga, nú í formi þjónustu- og gistirýmis í staðinn fyrir að vera ballstaður. Líkt og fulltrúi G-lista nefndi í grein sinni „Dýr fortíðarþrá (hægt er að nálgast þá grein hér http://kosningar2010.wordpress.com/2011/08/21/dyr-fortidarthra/ ) þá megum við ekki láta fortíðarþrána hindra okkur í að sjá til framtíðar. Það er mín trú að fjármunum er betur varið í íþróttahreyfinguna, almenningsíþróttir og Kvenfélag Grindavíkur í staðinn fyrir stjórnsýsluna og ballstað. Nú þegar rekstur bæjarins fer að ná jafnvægi eigum við að nota það svigrúm sem myndast til þess að auka þjónustu við bæjarbúa og/eða lækka álögur í staðinn fyrir að auka rekstrarkostnað stjórnsýslunnar.


Bryndís Gunnlaugsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Grindavík og forseti bæjarstjórnar.