Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ferskur andblær
Mánudagur 26. nóvember 2012 kl. 01:00

Ferskur andblær

Þrettán glæsileg ungmenni úr Reykjanesbæ mættu á fund bæjarstjórnar þriðjudaginn 6. nóvember. Krakkarnir eiga sæti í Ungmennaráði Reykjanesbæjar en ráðinu er ætlað að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í bæjarfélaginu. Unga fólkið er á aldrinum 13 til 18 ára og kemur úr ýmsum áttum; úr grunnskólum, Fjörheimum, björgunarsveitinni, íþróttafélögunum o.s.frv.

Vita best hvað þau vilja
Það er mikilvægt fyrir bæjarfélagið að eiga ungmennaráð. Fulltrúar bæjarbúa í bæjarstjórn eru flestir á miðjum aldri. Umhverfið er síbreytilegt og þarfirnar breytast einnig. Það sem krakkarnir þurfa og vilja er ekki endilega alltaf það sama og það sem bæjarfulltrúar „halda“ að krakkarnir vilji. Þar kemur ungmennaráðið sterkt inn. Það kom einnig fram á fundinum að bæjarfulltrúar virðast flestir fara um akandi og höfðu litla þekkingu á þörfum gangandi – og hjólandi vegfarenda og þeirra sem þurfa að nota strætó oft á dag.

Krafa um betra strætókerfi
Samgöngur voru eitt af stóru málum ungmennaráðsins, eða réttara sagt skortur á góðum almenningssamgöngum. Fulltrúar ungmennaráðsins bentu á að tími þeirra væri líka dýrmætur og að það væri ekki ásættanlegt að það tæki þau um klukkustund að komast á milli staða og síðan væri alls enginn strætó á kvöldin og um helgar. Þau kröfðust úrbóta.  Hin málin voru m.a. krafa um öflugri forvarnir í skólum, bætt lýsing á göngustígum, fleiri og meira áberandi ruslatunnur, betri kynning á íþrótta- og tómstundastarfi til dæmis með því að halda íþróttadag. Ungmennaráði finnst einnig að tómstundaiðkun ætti að vera ódýrari en hún er í dag. Þau stungu  upp á því að fara sömu leið og Grindvíkingar sem bjóða fólki að borga 20 þúsund krónur  á ári fyrir barn og það má þá æfa eins margar íþróttagreinar og það vill. Önnur leið væri að hafa systkinaafslætti á milli íþróttagreina eða byrja aftur með hvatagreiðslur og kynna þær betur en gert var. Ráðið var á einu máli um að ein af meginástæðum þess að iðkun íþrótta og annarra tómstunda væri að dragast saman í fjölskyldubænum Reykjanesbæ, væri skortur á samgöngum og há æfingagjöld.

Formleg meðferð
Fulltrúarnir voru mjög vel undirbúnir og málefnalegir. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust þegar formlegum framsögum var lokið. Ungmennaráð mun funda tvisvar á ári, í október og mars og síðan fundar ráðið með bæjarstjórn í apríl ár hvert.  Mikilvægt er að  tillögur þeirra og ályktanir um úrbætur fara til formlegrar afgreiðslu hjá bæjarstjórn, skv. 7. grein erindisbréfs Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.

Framsýni Framsóknarflokksins
Það  er mér ljúft og skylt að minnast þess að Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ var með stofnun ungmennaráðs sem eitt af stefnumálum sínum fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Fulltrúar flokksins útfærðu síðan þessar hugmyndir og þær fengust samþykktar í nóvember 2011 .  Það ber vott um góða samvinnu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þegar flokkur, sem á aðeins einn fulltrúa í bæjarstjórn kemur tveimur af stefnumálum sínum í gegn á aðeins tveimur árum.  Hitt málið sem Framsóknarflokkurinn átti hugmyndina að,  er að settar voru siðareglur fyrir bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar en þær fengust einnig samþykktar í nóvember 2011.
Það verður áhugavert að fylgjast með starfi ungmennaráðsins í framtíðinni. Ráðið er komið til að vera og ég er sannfærð um að það mun gera góðan bæ betri. Gangi ykkur vel!

Silja Dögg Gunnarsdóttir
Varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og býður sig fram í 2. sæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024