Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fermingarbörn eiga ekki að fara í ljós
Mánudagur 7. mars 2005 kl. 09:47

Fermingarbörn eiga ekki að fara í ljós

Foreldrum og forráðamönnum fermingarbarna hefur verið sent póstkort þar sem bent er á hætturnar sem fylgja því að ungt fólk fari í ljósabekki. Skilaboðin á kortinu eru frá Geislavörnum ríkisins, Landlæknisembættinu, Krabbameinsfélaginu og Félagi íslenskra húðlækna, en þetta er annað árið sem þessir aðilar standa saman að fræðsluherferð undir slagorðinu “Hættan er ljós”.

Á póstkortinu, sem sent er með styrk frá Póstinum, er vakin athygli á því að börn og unglingar séu næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum og sól og að brúnn húðlitur eftir sólböð geti verið merki um skemmdir í húðinni sem geta leitt til ótímabærrar öldrunar húðarinnar og jafnvel til húðkrabbameins. Tekið er undir tilmæli Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um að þeir sem eru yngri en 18 ára eigi ekki að fara í ljósabekki og eru foreldrar og forráðamenn fermingarbarna eindregið hvattir til að hafa þetta í huga. Í samvinnu við Biskupsstofu hefur verið leitað til presta landsins um að leggja málefninu lið.

Hliðstæð herferð á síðasta ári vakti mikla athygli og í framhaldi af henni tóku nokkrar sveitarstjórnir ákvörðun um að hætta að bjóða upp á sólböð í ljósabekkjum í íþróttamannvirkjum sínum.

Í könnunum sem IMG Gallup gerði í lok apríl og byrjun maí 2004 kom fram að 25,2% unglinga á aldrinum 12-15 ára höfðu farið í ljós síðustu tólf mánuðina, hlutfall pilta var 13,6% en hlutfall stúlkna 36,4%. Nýleg athugun á vegum Geislavarna ríkisins og Umhverfisstofnunar bendir til þess að hér á landi séu á annað hundrað sólbaðsstofur, sem er meira en í milljónaborginni London.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins greinast að meðaltali 45 manns á ári með sortuæxli í húð, 45 með önnur húðæxli og um 170 manns með svonefnd grunnfrumuæxli í húð. Tíðni húðæxla í heild hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum.

Minna má á að í byrjun vikunnar birtist sameiginleg yfirlýsing frá norrænu geislavarnastofnununum þar sem lagst er gegn notkun ljósabekkja og sólarlampa, einkum meðal ungs fólks.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024