Ferðaþjónustan og náttúra Suðurkjördæmis
Náttúra Suðurkjördæmis er í senn áhugaverð og ólík en einnig yfirþyrmandi og óbeisluð. Hið magnaða sambland íss og elds, beljandi jökulfljóta, formfagurra fossa, svartra stranda og blómlegra landbúnaðarhéraða dregur að erlenda sem innlenda ferðamenn og nær á þeim heljartökum. Í þessu felst mikil gæfa fyrir Suðurkjördæmi en einnig áskoranir.
Utan höfuðborgarsvæðisins sækja flestir erlendir ferðamenn Suðurkjördæmi heim af öðrum landshlutum. Það kemur okkur sem búum í kjördæminu kannski ekki á óvart en rannsóknir sýna að nánast allir þeir ferðamenn sem hafa heimsótt Suðurkjördæmi eru mjög eða frekar ánægðir með dvöl sína í landshlutanum. Við vitum hversu fallegt hér er en þetta staðfestir mikilvægi landshlutans hvað varðar orðspor Íslands erlendis og mikilvægi þess í ferðaþjónustu á Íslandi.
Ferðaþjónustan og frjálsa framtakið
Það má segja að við hér í Suðurkjördæmi höfum fengið ferðaþjónustuna bratt í fangið á árunum eftir fjármálahrunið. Víða voru innviðir ekki tilbúnir til að mæta auknum fjölda ferðamanna og hin opinbera umgjörð hafði ekki verið byggð upp í kringum ferðaþjónustuna líkt og nú er, hvað sem fólki finnst um eðli hennar og gagn í dag. Það var því að mestu frjálsa framtakið sem tók á móti straumi erlendra ferðamanna, byggði upp, fann upp og hugsaði upp lausnir, afþreyingu og þjónustu.
Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með uppbyggingunni í ferðaþjónustunni í Suðurkjördæmi síðasta áratuginn. Þjónustan og afþreyingin sem ferðamönnum er nú boðið upp á er ótrúlega fjölbreytt en jafnframt áhugaverð og eftirsótt. Ferðaþjónustan er eitt dæmið af mörgum um hvernig frjálsa framtakið getur gert ótrúlega hluti fái það tækifæri til að blómstra.
Að loknum heimsfaraldri
Ferðaþjónustan er ákaflega þýðingarmikil fyrir Suðurkjördæmi. Straumur erlendra gesta og hugvitssemi og frumkvöðlaandi íbúa Suðurkjördæmis hefur gert það að verkum að fólk getur búið áfram í sinni sveit og sinnt oft stórkostlega skemmtilegri vinnu með áhugasömum erlendum gestum.
Nú þegar sést til lands í baráttunni við heimsfaraldurinn er ljóst að ferðaþjónustan mun vera ein af lausnunum við það mikla atvinnuleysi sem nú er á Íslandi og því þurfa stjórnvöld að halda áfram stuðningi sínum við aðila í ferðaþjónustu þannig að ferðaþjónustan verði í stakk búin við að taka á móti öllum þeim erlendum ferðamönnum sem hyggja á ferðir til Íslands. Ég trúi því að Ísland og Suðurkjördæmi allt verði í fararbroddi þegar fólk byrjar að ferðast á ný.
Eflum Suðurkjördæmi!
Guðrún Hafsteinsdóttir
í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.