Ferðaþjónustan er grunnatvinnuvegur
Markaðsstofa ferðamála á Suðurnesjum gerði símakönnun í byrjun þessa mánaðar á því hvað margir starfa hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum á Suðurnesjum. Niðurstaðan er sú að um 1600 manns starfa allt árið í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og fjölgar í 2100 manns yfir sumarið. Ef þessi fjöldi er settur í samhengi við vinnumarkaðinn þá er þetta um 15% af vinnuaflinu á Suðurnesjum. Á landinu öllu eru um 8500 heilsársstörf í ferðaþjónustunni.
Ferðaþjónustan stærsti vinnuveitandinn á Suðurnesjum
Það eru kannski einhverjir sem efast um þessar tölur af Suðurnesjunum en við frekari sundurgreiningu þá er þetta augljóst. Hjá Bláa lóninu, söfnum og veitingastöðum starfa um 240 manns, við innritun og afgreiðslu í flugstöðinni o.fl. um 420 manns, hjá bílaleigum og við fólksflutninga starfa um 140 manns, hjá gististöðum um 100 manns, hjá viðhaldsdeildum flugflotans starfa um 300 manns, hjá Keflavíkurflugvelli ohf. starfa um 400 manns. Flugáhafnir eru ekki í þessum tölum.
Þessar tölur segja okkur að ferðaþjónustan skapar fleiri störf en nokkur annar atvinnuvegur á Suðurnesjum og því ein af grunnstoðum atvinnulífsins.
Háhitasvæðin eru djásnið
Yfirstandandi ár stefnir í að verða eitt það besta fyrir ferðaþjónustuna í landinu frá upphafi þrátt fyrir kreppu um allan heim og samdrátt í ferðalögum. Ferðaþjónustan er orðin sá atvinnuvegur sem skapar mestan gjaldeyri fyrir þjóðina eða um 140 milljarða á þessu ári. Það sem veldur því að Íslendingar ná að halda sínu og vel það er markaðssetning síðustu ára og áratuga á náttúru landsins. Þegar erlendir ferðamenn eru spurðir hvað ráði því að þeir fari til Íslands í fríinu þá segja 76% þeirra að það sé til að skoða íslenska náttúru. Vinsælustu dagsferðir frá Reykjavík eru skoðunarferðir að Geysi í Haukadal, að Krýsuvík, Bláa lóninu og Reykjanes. Litadýrð háhitasvæðanna vekur alltaf jafn mikla hrifningu ferðamanna og er endalaust myndefni ljósmyndara.
Gunnuhver lokaður
Einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesi, háhitasvæðið við Gunnuhver, hefur nú verið lokað. Orkan í Reykjanesvirkjun er tekin úr þessu háhitasvæði og hefur verið borað undir hverinn með þeim afleiðingum að hverasvæðið breiddi allt úr sér og eyðilagði aðgengið að hvernum. Ástandið við hverinn þótti það alvarlegt að Almannavarnir lokuðu veginum að honum af öryggisástæðum. Nú segist fyrirtækið sem olli þessu, ekki hafa efni á því að laga aðgengið, svo opna megi háhitasvæðið á ný.
Ég hef ekki verið talsmaður þess að banna virkjanir en það verður að gera þá lágmarkskröfu til fyrirtækja í orkugeiranum að þau umgangist náttúruna með virðingu og sýni öðrum atvinnugreinum tillitssemi. Flumbrugangur við virkjanagerð getur orðið mjög skaðlegur ferðaþjónustunni og einnig stóriðjunni.
Verður Seltún næst?
Ef við höfum ekki háhitasvæði að sýna á Reykjanesinu þá mun draga hægt og örugglega úr ferðum á Reykjanesið. Nú er falast eftir leyfi til að tilraunabora við háhitasvæðið við Seltún í Krýsuvík sem er einn allra vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesi. Gerist það sama þar og við Gunnuhver? Eftir því sem fleiri háhitasvæði landsins verða tekin úr umferð dregur úr áhuga erlendra ferðamanna á landinu með augljósum afleiðingum fyrir ferðaþjónustuna.
Með 10% fækkun ferðamanna til Íslands fækkar störfum í landinu um 850. Það kallast að pissa í skóinn sinn ef slík stefna verður látin líðast sem orðið hefur ofan á á Reykjanesi við Gunnuhver.
Kristján Pálsson
Höfundur er formaður
Ferðamálasamtaka Suðurnesja