Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ferðaþjónusta til framtíðar
Föstudagur 14. maí 2021 kl. 10:52

Ferðaþjónusta til framtíðar

Það verður ferðaþjónustan sem enn á ný mun koma íslenska hagkerfinu til bjargar og veita þúsundum vinnufúsra störf. Ég hef lengi starfað innan raða ferðaþjónustunnar, bæði sem hótelstjóri og setið í stjórnum ferðaskrifstofu og félagasamtaka, og átta mig á mikilvægi þess að vel til takist við endurreisn þessarar atvinnugreinar.

Mikilvægi mælikvarða

Greinin verður að fá að mótast og þróast í takt við þarfir viðskiptavinarins en einnig á forsendum íslensks samfélags. Einfalt er að mæla og greina þarfir ferðalanga með rannsóknum, hvort sem þær beinast að innlendum eða erlendum ferðalöngum. Slík vinna getur átt sér stað í samstarfi atvinnugreinarinnar og hins opinbera, t.d. í gegnum Markaðsstofu Suðurnesja og aðra slíka fagaðila.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Allar upplýsingar sem hægt er að greina nýtast svo fyrirtækjum í stefnumótun sinni og uppbyggingu og gerir okkur betur undirbúin til að taka á móti gestum okkar. Á þann hátt má draga úr óvissu og styrkja rekstrargrundvöll sem er um leið forsenda þess að hægt sé að veita betur launuð og tryggari störf.

Traust atvinna til lengri tíma

Reykjanesið er í langflestum tilvikum bæði upphaf og endir á ferðalagi fólks sem kemur hingað til lands en augljóst tækifæri er til að gera svæðið ekki bara að áningarstað heldur líka áfangastað. Á þeirri vegferð þarf að kortleggja tækifærin, efna til samstarfs einkaaðila og ferðamálayfirvalda og byggja til framtíðar. Slík uppbygging festir í sessi að hægt sé að starfrækja ferðaþjónustu allt árið um kring, sem er mikilvægt til að koma í veg fyrir endalausar sveiflur á atvinnumarkaði á svæðinu. Tryggja þarf trausta atvinnu til lengri tíma.

Veljum þekkingu og reynslu og sigurstranglegan lista í komandi prófkjöri – ég bið um ykkar stuðning í 3. sæti þann 29. maí næstkomandi.

Björgvin Jóhannesson.
Höfundur sækist eftir 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.