Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ferðaþjónusta og samgöngur í Suðurkjördæmi
Þriðjudagur 10. mars 2009 kl. 13:08

Ferðaþjónusta og samgöngur í Suðurkjördæmi

Það kann að hljóma kaldhæðnislega en í að minnsta kosti einum atvinnuvegi skapar kreppan trúlega fleiri tækifæri en hún skemmir, - og þá er um að gera að grípa þau tækifæri glóðvolg til nýrrar sóknar. Þetta er ferðaþjónustan – sem sérstaklega hér í Suðurkjördæmi býr yfir nánast ótæmandi möguleikum af margbreytilegu tagi.

Gengisþróun íslensku krónunnar gerir það að verkum að erlendir ferðamenn hafa ríkari tilhneigingu til að koma til Íslands en áður, og þegar hefur komið í ljós að efnahagsástandið hefur í för með sér að ferðalög Íslendinga sjálfra innanlands munu stóraukast á kostnað utanlandsferða. Nánast allir útlendir ferðamenn sem koma til landsins hafa sinn fyrsta og síðasta viðkomustað í okkar kjördæmi. Ef hægt væri að lengja viðdvöl þeirra á okkar slóðum þótt ekki væri nema um einn dag - jafnvel bara hálfan - myndi það skilja eftir umtalsverðar tekjur fyrir okkar landshluta og skapa fjölmörg atvinnutækifæri.

En til að svo megi verða þarf fyrst og fremst tvennt að vera til staðar: áhugaverðir áfangastaðir og góðar samgöngur.

Hvað fyrra atriðið varðar erum við auðvitað býsna vel sett í hefðbundinni "náttúrutengdri" ferðaþjónustu og skörtum perlum á borð við Gullfoss, Geysi, Þingvelli, Jökulsárlón, Vestmannaeyjar og svona mætti lengi áfram telja.

Í „menningar- og sögutengdri" ferðaþjónustu hefur talsvert áunnist á síðustu árum og mjög spennandi hlutir í uppsiglingu. Stórhuga verkefni eru í gangi í Reykjanesbæ með byggingu Hljómahallar, sem á m.a. að hýsa poppsögu Íslands, og Víkingaheimar þar sem skipið Íslendingur er miðpunkturinn. Svo höfum við Saltfisksetur í Grindavík, Þórbergssetur í Suðursveit og skipulagða starfsemi í kringum Njáluslóðir í Rangárþingi. Í Vestmannaeyjum er í gangi metnaðarfullt verkefni undir heitunum Eldheimar, Sagnheimar og Sæheimar þar sem fléttað er saman sögu eldgosa, mannlífs, menningar og atvinnuhátta í Eyjum.

Enn önnur grein undir þessum hatti er "heilsutengd" ferðaþjónusta þar sem Bláa lónið ber ægishjálm yfir aðra slíka starfsemi í landinu. Og nú er í undirbúningi stofnun heilsufélags á Suðurnesjum sem reiknað er með að geti skapað um 300 ný störf á næstu þremur árum, - mest í heilsutengdri ferðaþjónustu og læknisþjónustu, sem höfðaði til erlendra sjúklinga. Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir þau sóknarfæri sem fyrir hendi eru í ferðaþjónustu í Suðurkjördæmi, en sýnir í hnotskurn vaxtarmöguleikana og tækifærin á þessu sviði.

Samgöngubætur

Ein af grundvallarforsendunum fyrir því að hægt sé að hámarka þær tekjur og atvinnutækifæri sem felast í ferðaþjónustu í Suðurkjördæmi eru bættar samgöngur á svæðinu. Verðandi þingmenn kjördæmisins þurfa að standa vörð um þau áform sem boðuð eru í samgönguáætlun. Það á við um breikkun Suðurlandsvegar milli Selfoss og Reykjavíkur ásamt brú yfir Ölfusá við Selfoss, - Landaeyjahöfn og nýja ferju milli lands og Eyja, - brú yfir Hvítá og veg milli Flúða og Reykholts, - Gjábakkaveg á milli Laugarvatns og Þingvalla og Suðurstrandarveg á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Þetta eru auðvitað miklar fjárfestingar en það er arðsemin af þeim líka. Það kostar peninga að afla peninga.

Við þurfum að hlúa vel að hefðbundnu framleiðsluatvinnuvegunum í okkar kjördæmi, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði, en vexti þeirra greina eru auðvitað takmörk sett af náttúrunnar hendi. Í ferðaþjónustunni getum við hins vegar óhikað leikið sóknarleik - og það eigum við að gera.

Íris Róbertsdóttir.
Frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024