Aðsent

Fer Umhverfisstofnun offari í Helguvík?
Föstudagur 3. mars 2017 kl. 06:00

Fer Umhverfisstofnun offari í Helguvík?

- Aðsend grein frá Skúla Thoroddsen

Ég hef fylgst með umræðunni um meinta mengun frá kísilverksmiðju Sameinaðs Silikon hf. í Helguvík. Ég er líka einn af þeim sem hef hvorki skynjað ólykt í mínu nefi, né særindi í hálsi vegna verksmiðjunnar, mér vitandi. Samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er um mengun að ræða þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar. Í ljósi þessa lagaákvæðis kom mér á óvart að Umhverfisstofnun, hefði áform um að takmarka, a.m.k. tímabundið starfsemi verksmiðjunnar og krefja hana um úrbætur á starfsemi sinni, þar sem starfsleyfi verksmiðjunnar hefði ekki að geyma heimildir til lyktarmengunar. Það er sem sagt vegna „ólyktar“ sem Umhverfisstofnun hefur áform um að stöðva reksturinn, ekki vegna annarrar mengunar sem veldur röskun á lífríki eða hefur áhrif á heilsu fólks.

Umhverfisstofnun rökstyður áform sín þannig að stofnuninni hafi borist vel á annað hundruð ábendinga um lyktarmengun frá því verksmiðjan var gangsett í nóvember s.l. Lyktinni er lýst sem súrri brunalykt sem getur valdið ertingu í augum og hálsi. Vegna þessa óskaði ég, með vísan til ákvæða upplýsingalaga, eftir öllum gögnum málsins,  m.a. kvörtunum íbúa sem Umhverfisstofnun byggir á, upplýsingar um mengun umfram leyfileg mörk, upplýsingar um heilsutjón þeirra íbúa sem kvartað hafa, studda læknisvottorði. Skemmst er frá því að segja engin slík gögn bárust. Ég fékk einungis eftirlitsskýrslur starfsmanna, huglægt mat þeirra og lýsingu á aðstæðum og skráð frávik vegna ófullnægjandi  afsogs og hreinsunar útblásturs frá verksmiðjunni og svo bréfið frá 21. febrúar sl. þar sem áform Umhverfisstofnunar eru kynnt.
Ef frá eru talin úrbætanleg tækniatriði sem nálgast má í anda meðalhófs, virðist sem Umhverfisstofnun byggi áform sín á huglægu mati og óformlegum kvörtunum. Ekkert liggur fyrir um aðra mengun en lykt, eins og hver og einn finnur lykt eða ólykt með sínu nefi. Ekkert liggur fyrir um staðfest heilsutjón né aðra skaðlega mengun frá verksmiðjunni studda hlutlægu mati.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Auðvitað skal því haldið til haga að starfsleyfi verksmiðjunnar hefur ekki að geyma heimildir til lyktarmengunar, enda er lyktarmengun almennt ekki vandamál við rekstur kísilverksmiðja, þar sem bruni við háan hita eyðir lykt. Þetta veit Umhverfisstofnun. (Annað mál og innskot: Það mætti setja upp brennara á skorstein loðnu- og gúanóbræðslunnar í Helguvík til að útiloka ólyktina þaðan, en kannski hefur bræðslan starfsleyfi fyrir lyktarmengun?)

Nú er það ekki tilgangur þessara skrifa minna að gera lítið úr því að fólki finnist ólykt koma sér við í sínum heimabæ, þvert á móti. Hins vegar get ég ekki varist þeirri hugsun að Umhverfisstofnun fari með áformum sínum offari, verði þau að veruleika og starfsemin takmörkuð, án haldbærra gagna um raunverulega mengun. Það bryti gegn meðalhófi og góðri stjórnsýslu, miðað við þann stutta tíma sem verksmiðjan hefur verið í keyrslu, þess vegna prufukeyrslu, og alltaf má gera ráð fyrir byrjunarörðugleikum. Vel má vera að fyrirtækið hafi ekki gætt að því að tryggja færni og þekkingu starfsmanna á tækni verksmiðjunnar, m.a. með markvissri þjálfun áður en verksmiðjan hóf starfsemi sína. Um það skal ég ekkert fullyrða né heldur hvort verksmiðjan sé rétt hönnuð. Hafa ber í huga að á sama hátt og starfsemi af þessari gerð er ný hér á landi, þá er eftirlitshlutverk Umhverfisstofnunar einnig nýtt með slíkri starfsemi þó enginn dragi í efa færni stofnunarinnar almennt. Auðvitað á ekki að slaka á kröfum um mengunarvarnir, en að hyggja á verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar með áformum um að takmarka starfsemina án þess að fyrir liggi hlutlægar ástæður um mengun, eins og hún er skilgreind samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, er lagalega afar hæpin aðgerð. Það á einnig við þótt gild rök væru fyrir úttektinni vegna þess að umsókn um starfsleyfi hafi eftir atvikum verið ónákvæm eða þess vegna röng, þar sem lyktarmengunar var ekki getið sem möguleika.

Skúli Thoroddsen
Lögfræðingur, búsettur í Keflavík