Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Félagsvinir atvinnuleitenda
Fimmtudagur 24. febrúar 2011 kl. 09:27

Félagsvinir atvinnuleitenda

- Kynningarfundur í Virkjun fimmtudaginn 3. mars klukkan 14:00

Rauði kross Íslands, Virkjun, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum og Verkalýðs- og Sjómannafélag Keflavíkur eru að leggja af stað með félagsvinaverkefni fyrir atvinnuleitendur. Markmið verkefnisins er að styrkja og virkja atvinnuleitendur í starfsleit sinni og byggir á jafningjafræðslu þar sem sjálfboðaliðar fá fræðslu til að styðja og leiðbeina fólki í sömu stöðu. Markmiðin fyrir þátttakendur eru: Hjálp til sjálfshjálpar, vinna gegn niðurbroti, stækka tengslanet og auka möguleika til starfa. Verkefnið hefur reynst afar vel frá því það hóf göngu sína á höfuðborgarsvæðinu fyrir rétt liðlega ári en þetta er í fyrsta skipti sem það er keyrt í gegn á Suðurnesjum enda ekki vanþörf á þar sem atvinnuleysi í janúar var mest á Suðurnesjum eða 14,3%.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Um verkefnið

Félagsvinaverkefni fyrir atvinnuleitendur byggir á sambandi tveggja einstaklinga þar sem annar leiðir sambandið (sjálfboðaliði) en hinn þiggur leiðsögn (atvinnuleitandi), þeir eru félagsvinir hvors annars. Sá sem leiðir sambandið hefur hlotið til þess þjálfun hjá samstarfsaðilum verkefnisins og hefur einnig sjálfur reynslu af atvinnuleit. Sambandið tekur mið af óskum og þörfum atvinnuleitandans með það að markmiði að sambandið opni dyr að helstu úrræðum sem geta gagnast honum í atvinnuleitinni. Mikilvægt er að félagsvinir skoði sínar eigin væntingar og markmið í sambandinu og komi því til skila til hins aðilans. Þannig getur myndast farsælt og árangursríkt félagsvinasamband. Hvert samband varir í þrjá mánuði og áætlað er að félagsvinir hittist einu sinni í viku. Félagsvinasamband byggir á jafnréttisgrundvelli, gagnkvæmri virðingu og tillitssemi. Í verkefninu er unnið á einstaklingsgrunni þar sem maður á mann aðferðin er notuð. Lögð er áhersla á að auka bæði félagslega virkni þátttakenda og aðgengi þeirra að upplýsingum um þau úrræði sem eru í boði fyrir atvinnuleitendur. Virkni á meðan á atvinnuleit stendur eykur sjálfstraust og vellíðan sem gerir það að verkum að fólk er tilbúið að mæta til starfa þegar kallið kemur.


Að fá félagsvin

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en sex mánuði og hafa ekki verið virkir í félagsstörfum eða sjálfboðnu starfi hafa kost á því að fá félagsvin. Mikilvægt er að þeir hafi vilja til þess að taka ábyrgð og stjórn á eigin lífi og aðstæðum ásamt því að vera opnir fyrir nýjum möguleikum og tækifærum. Í upphafi félagsvinasambands skoða atvinnuleitendur þarfir sínar í víðu samhengi, ræða þær við sinn félagsvin og setja sér markmið með sambandinu. Til þess að ná markmiðum sínum búa þeir til vinnuáætlun með tímaramma sem stuðst er við á meðan sambandið varir. Félagsvinir leggja vinnuáætlun sína fyrir verkefnisstjóra á þriðja fundi sínum sem skoðar árangurinn á miðju tímabilinu og í lok þess.


Ávinningur þátttakenda

Ávinningur atvinnuleitanda er að hann fær stuðning til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, getur rætt málin í trúnaði og fær ferska sýn á aðstæður sínar. Hann eflir sjálfstraust sitt og sjálfsmynd, fær leiðbeiningar um þau úrræði sem í boði eru, getur komið auga á ný og spennandi tækifæri og þannig aukið atvinnumöguleika sína. Ávinningur sjálfboðaliða verkefnisins er að hann fær nýja sýn á eigin aðstæður og lifnaðarhætti, deilir hæfileikum sínum og þekkingu og sér aðra manneskju styrkjast. Auk þess fá sjálfboðaliðarnir aðgang að tengslaneti við aðila sem bjóða úrræði til styrkingar atvinnuleitendum, öðlast leiðbeinendahæfileika og styrkja leiðtogahæfileika sína sem hægt er að nýta í öðru samhengi. Verkefnið er krefjandi að því leyti að mikil áhersla er lögð á að fólk nái persónulegum árangri en einnig er lögð áhersla á að fólk upplifi og njóti þess sem tilveran hefur upp á að bjóða.


Skráning í verkefnið

Fimmtudaginn 3. mars næstkomandi verður haldinn kynningarfundur um verkefnið í Virkjun sem er staðsett á Flugvallarbraut 740, Ásbrú. Þeir atvinnuleitendur sem hafa áhuga á því að fá nánari upplýsingar um verkefnið eða skrá sig í það geta óskað eftir viðtali hjá verkefnisstjóra, Guðmundi Ingvari Jónssyni, með því að senda póst á netfangið [email protected] eða fyllt út umsókn í Virkjun á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem liggja í afgreiðslunni. Sjá nánar á heimasíðu Rauða krossins http://redcross.is/id/1003146


Guðmundur Ingvar Jónsson,

verkefnisstjóri Félagsvinir atvinnuleitenda.