Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 10. janúar 2003 kl. 13:44

Félagsmálastjórinn og fátæktin

Í Víkurfréttum þann 9. janúar sl. var fjallað um fátækt í Reykjanesbæ. Vil ég byrja á því að þakka Víkurfréttum þessa umfjöllun sem er bráðnauðsynleg. Var um þetta fjallað með viðtölum við ýmsa aðila m.a. við félagsmálastjóra Reykjanesbæjar. Vegna þess að ég þekki félagsmálastjóra af góðu einu ætla ég að henni gangi gott eitt til með þessu viðtali.Þó er ein málsgrein í viðtalinu gjörsamlega úr takti við það sem ég myndi ætla henni. Þaðer haft eftir félagsmálastjóra að “með framfærslu sveitarfélaga séu sveitarfélögin í raun að hjálpa til við að viðhalda láglaunastefnunni og um leið veita stjórnvöldum og verkalýðshreyfingunni frest til þess að taka á vandanum.“
Er það verkalýðshreyfingunni að kenna að til sé fátækt fólk á Íslandi? Er það vegna þess að hún hafi ekki tekið á vandanum? Vil ég byrja á því að minna á það, að það flest það sem nú er talið til sjálfsagðra mannréttinda og hluti af lífsgæðum okkar, hefur orðið til vegna áralangrar baráttu hreyfinga launafólks við stjórnvöld og samtök atvinnurekanda. Félagslega húsnæðiskerfið, lífeyrisjóðir, tryggingakerfið, mannsæmandi vinnutími og fl. eru allt atriði sem nefna má því til stuðnings.
Félagsmálastjóri segir einnig að hækka eigi lægstu launin til jafns við þær launahækkanir sem verið hafa í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Vil ég benda henni á að í síðustu kjarasamningum hækkuðu lægstu laun um allt að 48% og ekki minna en 30% sem er verulega umfram almennar launahækkanir á samningstíma. Útrýming fátæktar hefur verið viðfangsefni stéttarfélaga allt frá því að þau voru stofnuð og mun verða það, allt þar til markmiðinu hefur verið náð. Í þessari baráttu getur enginn spilað frítt spil hvorki sveitarfélög né aðrir. Afkoma fólks ræðst af ýmsu fleiru en launum, s.s verðlagi, húsnæðiskostnaði, bótum og þjónustugjöldum. Á síðasta ári féll íslenska krónan verulega m.a. vegna klaufaskaps íslenskra stjórnvalda. Þessu fygdi veruleg hækkun verðlags og hækkun lána sem ekki hefur gengið til baka. Það eykur fátækt.
Núverandi ríkistjórn ákvað að leggja niður félagslega íbúðarkerfið og taka upp viðbótarlán í staðinn sem hefur aukið eftirpurn á almennum markaði og hækkað húsnæðisverð og leiguverð. Þetta eykur fátækt. Sveitarfélag og ríki hafa hækkað þjónustugjöld verulega að undanförnu. Má þar nefna leikskólagjöld, komugjöld á heilsugæslu, æfingagjöld vegna tómstunda- og íþróttastarfs og fl. Þetta hefur aukið fátækt. Atvinnuleysisbætur, ellilífeyrir, örorkulífeyrir og framfærsla sveitarfélaga hafa á undanförnum árum ekki hækkað í takt við hækkanir lægstu launa. Það eykur fátækt.
Eins og sjá má af viðtali við starfsmann Rauða krossins í síðasti blaði Víkurfrétta styrkti Verslunarmannafélag Suðurnesja, Suðurnesjadeild Rauða krossins með fjárframlagi til hjálpar bágstöddu fólki nú fyrir jólin. Þetta hefur félagið gert undanfarin ár. Við viðurkennum tilvist fátæktar og erum tilbúin að berjast gegn henni, en afneitum henni ekki eins og forsætisráðherra gerði svo ósæmilega í útvarpsviðtali þegar hann var spurður um biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd. Þar sagði hann eitthvað á þessa leið að þar sem eitthvað væri ókeypis þar væri ætíð eftirspurn. Við í launþegahreyfingunni skorumst ekki undan því að vinna gegn fátækt, en ætlumst einnig til að aðrir geri það líka þ.á.m. sveitarfélög.

Guðbrandur Einarsson
formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024