Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Félagslegt réttlæti fyrir Suðurnesjabúa - er til of mikils að ætlast? Við erum líka fólk! 
Sunnudagur 11. apríl 2021 kl. 11:30

Félagslegt réttlæti fyrir Suðurnesjabúa - er til of mikils að ætlast? Við erum líka fólk! 

Suðurkjördæmi fer ört vaxandi og eru Suðurnesin fjölmennust á því svæði. Atvinnumál á Suðurnesjum hafa verið löskuð frá því að WOW hætti starfsemi og nú í kjölfar Covid-19 hefur ástandið versnað til muna þar sem margir reiða sig á vinnu í tengslum við flugstöðina. Og er staðan sú að í dag er næstum því fjórða hver manneskja án atvinnu hér á Suðurnesjum. 

Það er brýnt að ríkið leggi til mun meira fjármagn til þess að styðja við bakið á atvinnuleitendum. Það á að gera öllum atvinnuleitendum kleift að geta sótt sér námskeið til þess að styrkja sig út á vinnumarkaðinn aftur og auk þess er hægt að styðja við  fyrirtæki svo þau geti ráðið til sín fleira starfsfólk. Einnig er mikilvægt að horft sé til Suðurnesja með störf og stofnanir á vegum ríkisins, þar sem faraldurinn hefur kennt okkur það hve tæknin getur stutt við störf án staðsetningar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Langvarandi atvinnuleysi er heilsuspillandi og margt fólk missir heilsuna bæði andlega og líkamlega í þessu ástandi, þá er mikilvægt að geta reitt sig á heilsugæslur. Löngum er vitað að HSS er langt frá því að geta sinnt þeim fólksfjölda sem þangað sækir, þar er naumt skammtað frá ríkinu í rekstur enda fólksfjölgun mikil á svæðinu. Þörf er á  róttækum aðgerðum  til að ríkið geti staðið við sitt hlutverk, sem er að tryggja heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og heimilislækni öllum íbúum til handa. Húsnæðið er einnig úr sér gengið og lítið aðlaðandi fyrir slíka starfsemi. Hér eru fáir sérfræðingar og í raun er íbúum stöðugt ýtt út í ferðalög til höfuðborgarinnar sem er bæði tímafrekt og óumhverfisvænt. Heilsugæsla er grunnþjónusta og hún er löskuð hér á Suðurnesjum, úr því þarf að bæta.

Á Suðurnesjum eru allt of mörg ungmenni sem ekki eru í virkni og er langtum stærsti hluti atvinnuleitenda á aldrinum 20-34 ára, flestir eru verkafólk, erlendir ríkisborgarar eru þar um 40% og langtíma atvinnuleitendum fjölgar mest. Þetta er samfélagslegt vandamál og við þurfum að standa saman og finna lausnir en til þess þurfum við aðstoð ríkisins, styrkja þarf framhaldsskólann og Keili til að mæta vissum hópi og svo þarf símenntunarmiðstöðin mun meira fjármagn til að auka þjónustu og mæta þörfum atvinnuleitenda.

Andleg vandamál hafa aukist verulega samhliða auknu atvinnuleysi hér á Suðurnesjum og mikil þörf er á úrræðum fyrir fólk í þessari stöðu. Um er að ræða úrræðaleysi og vanmátt kerfanna til að mæta þörfum þessa fjölda. Bið eftir sálfræðiþjónustu hér á Suðurnesjum er minnst sex vikur á einkastofu. Og mun lengri bið til þess að komast að hjá geðteymi HSS þrátt fyrir mikla aukningu sálfræðinga. Oft er það þannig að andleg veikindi leiða af sér líkamleg veikindi og svo öfugt. Mikilvægt er að sett verði sú krafa að HSS ráði fleiri sérfræðinga og mæti auknum þörfum og breyttum aðstæðum á Suðurnesjum, það er mikilli aukningu íbúa og atvinnuleysi. 

Við þurfum að bregðast við þessari stöðu, gæta þess að sanngirni, jafnrétti og félagslegt réttlæti sé í forgrunni þegar kemur að úthlutunum úr sameiginlegum sjóðum. Við þurfum að tryggja fjölbreytta atvinnu fyrir alla og bæta þarf stöðu þeirra sem glíma við erfiðleika vegna faraldursins með eflingu mennta- og heilbrigðiskerfa.

Hólmfríður Árnadóttir,
menntunarfræðingur, formaður Svæðisfélags Vg á Suðurnesjum og frambjóðandi í 1. sæti á lista Vg í Suðurkjördæmi