Félagsfundur VS

Ágætu félagsmenn Verslunarmannafélags Suðurnesja.
 
Á morgun fimmtudag verður haldinn félagsfundur hjá Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Þessi fundur er haldinn vegna að þess að félaginu bárust undirskriftir 50 félagsmanna sem óskuðu eftir að þessi fundur yrði haldinn. Skv. lögum félagsins ber að verða við því. Þá ber einnig að tilgreina fundarefni og er óskað eftir „framlengingu skilafrests til allsherjarkosningar í Verslunarmannafélagi Suðurnesja“ eins og það er orðað. 
 
Því háttar hins vegar þannig til að kjörnefnd ógilti þetta framboð B-lista á fundi sínum þann 19. mars vegna verulegs formgalla. Meðmælendalisti var ekki talinn gildur þar sem hann mælti ekki með neinu sérstöku og gat því engan hátt talist gildur. 
 
Ýmsir aðrir vankantar voru á listanum s.s. eins og að einn frambjóðandi í stjórn var ekki félagsmaður VS heldur í félagi stjórnenda, mörg nöfn á meðmælendalista voru skrifuð með sömu rithönd, einhverjir á meðmælendalista voru ekki félagsmenn og nöfn einhverra frambjóðenda voru einnig á meðmælendalista sem er ekki heimilt skv. lögum VS. Þá hefur það einnig fengist staðfest af einum frambjóðanda af B-lista, sem nú hefur sagt sig frá listanum, að verið var að safna meðmælendum áður en framboðslisti var tilbúinn.
 
Ýmislegt af þessu hefði mátt lagfæra og en þar sem kjörnefnd ógildi meðmælendalistann í heild sinni hafði hún engan annan kost í stöðunni en að ógilda framboðið. 
 
Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort hægt sé yfir höfuð að ógilda niðurstöðu kjörnefndar sem bókaði á fundi sínum þann 19. mars „Einungis eitt framboð var löglega framkomið, A- listi, listi stjórnar og trúnaðarráðs og er hann því sjálfkjörinn.“ 
Það hlýtur því að teljast sérstakt ef félagsfundur ætlaði sér að taka málin í sínar hendur og breyta þessari niðurstöðu með einhverjum hætti.
 
Stéttarfélög starfa skv. lögum um „Stéttarfélög og vinnudeilur“ og þess vegna er nauðsynlegt að starfsemi þeirra sé hafin yfir allan vafa og að geðþóttaákvarðanir ráði því ekki hvernig starfi þeirra er háttað. 
 
Ég vil því biðla til félagsmanna að mæta á félagsfundinn í Bergi, Hljómahöll á fimmtudag kl. 20:00 og sjá til þess að félagið okkar verði áfram starfrækt skv. þeim reglum sem okkur ber að fara eftir. 
 
Með félagskveðju,
Guðbrandur Einarsson formaður VS