Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 21. janúar 2003 kl. 09:32

Fátækt eða afkomutrygging?

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um fátækt á Íslandi og löngu orðið tímabært að um þetta málefni sé rætt fyrir opnum tjöldum, þar sem vandinn hefur aukist á undanförnum misserum. Margir eiga erfitt með að viðurkenna að fátækt sé staðreynd í landinu og valið þá leið að stinga höfðinu í sandinn og drepið umræðunni á dreif með því, að ekki sé til nein skilgreining á því hvað fátækt sé og við hvað skuli miðað þegar rætt sé um fátækt. Ég tel að um þetta þurfi ekki að deila, það sé staðreynd að fátækt sé vaxandi vandamál í dag og nauðsynlegt að bregðast við henni með öllum tiltækum ráðum.

Félagslega aðstoðin á í eins ríkum mæli og unnt er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og einnig að hafa úrræði til að mæta þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki, tímabundið eða til lengri tíma, aflað tekna sem duga til framfærslu. Ástæður vangetu til framfærslu geta verið margvíslegar, s.s heilsubrestur, atvinnuleysi, aldur, lág laun, utanaðkomandi áföll og svo mætti lengi telja. Ísland er í hópi ríkustu þjóða heims og við eigum ekki að láta það viðgangast að hópur fólks búi við viðvarandi fátækt.

Nauðsynlegt er að skilgreina grunnframfærslu betur en gert hefur verið og leita síðan leiða til þess að öryggisnetið sé það þétt riðið að það taki við þeim sem á þurfa að halda. Að þessu verkefni þurfa að koma ríkið, sveitarfélög, stéttarfélög, atvinnurekendur, lífeyrissjóðir og frjáls félagasamtök. Samfylkingin hefur sett fram hugmynd að afkomutryggingu, sem hafi það markmið að enginn þurfi að una óvissu um framfærslu sína og lifa í fátækt. Við mótun slíkrar afkomutryggingar verður m.a. að skoða; lágmarkslaun, skattamál, félagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysistryggingar og almannatryggingakerfið. Í kjölfarið þarf að endurskoða lög um almannatryggingar þannig að afkomutryggingin geti orðið að veruleika. Þessa vinnu þarf að hefja strax þannig að þeir sem horfast í augu við aðstæður sem ekkert okkar vill þurfa að lifa við, eygi von um úrbætur. Nóg hefur verið talað og kominn tími til athafna.

Jón Gunnarsson
Skipar 4. sæti framboðslista
Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024