Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fasteignaskattar þurfa að lækka
Föstudagur 1. mars 2019 kl. 06:00

Fasteignaskattar þurfa að lækka

Fasteignaskattur er næststærsti tekjuliður sveitarfélaga á Íslandi, á eftir útsvari. Fasteignaskattur hefur nærri tvöfaldast á tuttugu árum. Ástæðan er hækkun fasteignamats. Þeir eru nú nærri tvöfalt hærri en að meðaltali á Norðurlöndum.

Fasteignaskattur er ekkert annað en eignaskattur sem er ekki einungis tekjuauki fyrir sveitarfélög heldur íþyngjandi kostnaðarauki fyrir almenning og fyrirtæki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

D-listinn setti lækkun fasteignaskatta á oddinn í síðustu kosningum. Þá hafði fasteignamat hækkað að jafnaði um 30% á þremur árum meðan fasteignaskattsprósentan hafði verið lækkuð um 8% á sama tímabili. Það náðist samstaða um að lækka útreikningsprósentuna af fasteignamati. En betur má ef duga skal.

Gríðarleg tekjuaukning hefur verið í rekstri Reykjanesbæjar á síðustu árum sem aðallega má rekja til bætts atvinnuástands sérstaklega út frá Keflavíkurflugvelli. Það skipti miklu máli að þeir innviðir sem höfðu verið byggðir upp voru klárir til að mæta þessum mikla vexti. Reykjanesbær fékk miklar tekjur án þess að ráðast í miklar framkvæmdir á móti. Nú er búið að deila út næstum öllum lóðum í Innri-Njarðvík, Ásbrú óðum að fyllast og ný hverfi hafa sprottið upp.

Við þetta bætist að tekjur upp á nokkra milljarða vegna greiðslu á svokölluðu Magma-bréfi sem og aðrar auknar tekjur eru að skila okkur niður fyrir lögbundið skuldaviðmið.  Það er kominn tími á að íbúar fái að njóta þess líka. Við verðum að lækka fasteignaskattana til þess að koma til móts við íbúa bæjarins svo þeir flytji ekki burtu. Einnig viljum við vera valkostur fyrir öfluga einstaklinga sem vilja flytja til Reykjanesbæjar. Hófleg skattheimta er lykilþáttur í að bæta samkeppnisaðstöðu sveitarfélagsins.

D-listinn mun áfram berjast fyrir því að gjöld á bæjarbúa hækki ekki sjálfkrafa við hækkun fasteignamats á kjörtímabilinu. Með hagstæðum rekstri verðum við samkeppnishæf við önnur sveitarfélög. Lækkum fasteignaskatta!

Margrét Sanders
Oddviti D listans í Reykjanesbæ