Fasteignagjöld eru mjög há og allt þeim tengt
– Konráð K. Björgólfsson skrifar
Á heimasíðu Reykjanesbæjar, dags 10.11.14 spyr Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar: „Er 0,5% fasteignaskattur hár fasteignaskattur?“
Í framhaldi á grein sinni segir hann m.a.
„Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna og er lagður árlega á flestar fasteignir í landinu.
A-skattur er lagður á íbúðarhúsnæði og getur verið allt að 0,5% af fasteignamati. B-skattur er lagður á ýmsar opinberar byggingar og er 1,32% af fasteignamati. C-skattur er lagður á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki fellur undir A- eða B-skatt og getur verið allt að 1,32% af fasteignamati. Sveitarstjórnum er heimilt að hækka álagningu A- og C-skatta um allt að 25%. Hámarksálagning A-skatts verður þá 0,625% og C-skatts 1,65%.“
Ef farið er inn á vefsvæði Reykjanesbæjar má finna gjaldskrá Reykjanesbæjar fyrir fasteignagjöld en þar segir:
„Fasteignaskattur, íbúðir A-stofn 0,3% af fasteignamati
Fasteignaskattur, opinberar byggingar B-stofn 1,32% af fasteignamati
Fasteignaskattur atvinnuhúsnæði, C-stofn 1,65% af fasteignamati
Holræsagjald íbúðir 0,17% af fasteignamati.
Holræsagjald atvinnuhúsnæðis 0,36% af fasteignamati
Lóðaleiga 2,00% af lóðamati, 35% afsláttur til þeirra sem greiða 2%
Sorphirðugjald 14.225kr pr. fasteignanúmer á íbúðir
Sorpeyðingargjald 23.210kr pr. fasteignanúmer á íbúðir“
Hér skal sérstaklega horft á lóðarleigugjöld því þau eru 2 % en víðast hvar annars staðar 0.2 % svo munar um minna. Þessi 35 % afsláttur sem minnst er á með lóðarleigunni er trúlega hugsaður til þeirra sem greiða öðrum 2 % í leigu og þá fæst 35 % afsláttur á viðbótarleigu bæjarfélagsins. Þetta er ekki útskýrt hvað átt er við og því mér nokkuð frjáls túlkunin.
En… Mjög auðvelt er að rugla saman fasteignaskatti og fasteignagjöldum og óvarlegt að nota hugtökin jöfnum höndum án aðgreininga. Fólk getur borgað há fasteignagjöld þó fasteignaskatturinn sé við lægri mörk og svo í hina áttina.
Til þess að fá eitthvað viðmið til samanburðar á fasteignagjöldum í Reykjanesbæ við önnur sveitarfélög, án þess að vera með einhverja vísindalega niðurstöðu, þá sýnist mér að 10 milljón króna eign í Reykjanesbæ beri jafn há eða svipuð fasteignagjöld og 15 milljón króna eign í Reykjavík. Munar mestu um lóðarleiguna.
Veit ekki afhverju ætti að hækka þessi gjöld á íbúa því það er nýlega búið að hækka fasteignagjöld í Reykjanesbæ með því að taka ferskt vatn og selja íbúunum það, sér, sem var ekki áður. Sú framkvæmd ein er yfir 20.000,- krónur á ári aukalega fyrir litla íbúð.
Svo má ekki gleyma Kölku, kalka.is Búið er að hækka fasteignagjöld óbeint með því að setja á gjaldtöku fyrir ýmsan úrgang frá heimili sem var ekki áður og einn svartur ruslapoki, að mér virðist, búinn að fá á sig gjald allt að 875,- krónum. Minna mátti það nú ekki vera. Sjá gjaldtöku hjá Kölku, kalka.is
Ef farið er inn á vefsvæði hjá HS-VEITUR hf. má lesa eftirfarandi:
„ 1. janúar 2014
G J A L D S K R Á
HS Veitna hf. fyrir ferskt neysluvatn.
…..Fyrir afnot ferska neysluvatnsins skal húseigandi greiða vatnsgjald samkvæmt
álagningu eins og lýst er í gjaldskrá þessari. Vatnsgjald er lagt á eiganda fasteigna á
veitusvæði HS Veitna í upphafi árs.
Vatnsgjald á Suðurnesjum
Vatnsgjald er reiknað af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, flokkur A. 0,207%
Vatnsgjald er reiknað af fasteignamati húsnæðis í flokkum B, C og 0. 0,207%.“
Að lokum: Var ekki Reykjanesbær að lækka afslætti á fasteignagjöldum til margra öryrkja og aldraðra nú á síðasta ári? Er ekki komið nóg í þessa veru? Og hvernig ætlar bæjarfélagið að vernda í framhaldinu, það fólkið sem enga hefur atvinnuna og jafnvel engar atvinnuleysisbæturnar og þá búið samt að hækka á það fasteignagjöld og skatta? Er virkilega ekkert til í lögum sem algjörlega verndar grunn framfærslubætur einstaklingsins? Eru engar varnargirðingar til þegar einstaklingurinn stendur höllum fæti? Var ekki verið að tala um í „Sókninni“ að framlegð hvers einstaklings væri lág hér miðað við önnur sveitarfélög? Er það ekki aðvörunarbjallan sem á að hlusta á og væri ekki í góðu, í því ljósi, alla vega fyrir mig að fá vitneskju um hvað orðið „Framlegð“ þýðir, orðið sem var notað svo oft til að útskýra svo ég sé leshæfur á skýrsluna? Veit ekki betur en hér sé á ferðinni „bókhaldstúlkun“ notuð í fámennum hóp og sjaldnast notuð um fólk, en er aðallega notað um vörur.
Í samantekt hagdeildar Alþýðusambands Íslands í skýrslunni „Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem mér virðist fjalla um árið 2013 má lesa:
„Nú þegar hafa hátt í 3 þúsund atvinnuleitenda fullnýtt bótarétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu en það eru þeir einstaklingar sem hafa verið á atvinnuleysisskrá í þrjú ár eða lengur. Einstaklingar, sem eru án atvinnu og hafa fullnýtt bótarétt sinn, þurfa því að leita á náðir síns sveitarfélags um framfærslu. Sveitarfélög eru skyldug til að veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sé þess þörf….
Eins og sjá má í töflu 5 er grunnfjárhæð Reykjavíkur hæst eða 163.635 kr. en grunnfjárhæð Garðabæjar er lægst eða 141.683 kr. af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Garðabær er hins vegar eitt þeirra tveggja sveitarfélaga, sem ASÍ skoðaði, sem tekur mið að fjölskyldustærð, þ.e. fyrir hvert barn hækkar grunnfjárhæðin um 20%, þ.e. leið A.
Reykjanesbær, Grindavík og Árborg eru með grunnfjárhæð á bilinu 125.000 kr. – 130.000 kr. en önnur sveitarfélögin á landsbyggðinni með grunnfjárhæð í kringum 140.000 kr."
Þegar maður sér vandamálið sem bæjarfélagið stendur frammi fyrir er ekki auðvelt að sjá góðar lausnir. „Við þurfum atvinnu á svæðið, meiri atvinnu,“ sagði kona við mig um daginn. Og mér varð að orði: „Hvar er allur íslenski iðnaðurinn? Smjörlíki, þvottarefni, eldavélar, umbúðir og það allt. Maður þverfótaði ekki fyrir iðnaðarfyrirtækjum í gamla daga. Mátti vinna eins og maður gat staðið í lappirnar. Hvar er þetta allt í dag?“
Bestu kveðjur,
Konráð K. Björgólfsson