Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Farsæl skólaganga
Föstudagur 4. febrúar 2022 kl. 07:21

Farsæl skólaganga

Börnin eru mikilvægust, þau eru framtíðin og skólakerfið á að veita öllum börnum jöfn tækifæri á að þroska sína ólíku hæfileika og skapa sjálfstraust til að skapa verðmæti í framtíðinni og verðmæti fyrir samfélagið. Börnin eru grunnurinn og framtíðin og skólinn leggur grunn að því sem framundan er. Pössum okkur að dragast ekki aftur úr, við erum að gera vel og við viljum vera í fremstu röð í menntamálum.

Reykjanesbær getur verið leiðandi í menntamálum á Íslandi með frábæra kennara og gott fagfólk í leik- og grunnskólum ásamt framúrskarandi nemendum. Um síðustu aldamót gekk skólum í okkar samfélagi ekki nægilega vel en með góðu, samstilltu átaki tókst að snúa til sóknar og okkur tókst að stíga upp yfir landsmeðaltal í íslensku og stærðfræði. En það tók mörg ár að vinna okkur upp og við sjáum árangurinn í mjög frambærilegu ungu fólki. Við megum ekki glutra slíkum árangri niður. Gæði samfélaga eru í síauknum mæli metin í gæðum skólakerfis þess. Lykillinn að velgengni í lífinu er farsæl skólaganga og menntun en öll börn þurfa góðan stuðning og hvatningu í  námi. Börnin verja oft löngum degi í leik- og grunnskóla og mikilvægt er að gott samstarf sé milli heimilis og skóla svo við tryggjum barninu líði vel og gangi vel í námi. Mikil fjölgun ungra barna kallar á fleiri leikskólapláss og mikilvægt er að sú þjónusta sé til staðar fyrir barnafjölskyldur í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég ítreka að í auknum mæli er það fyrsta sem fólk gerir þegar það tekur ákvörðun um að flytja í annað sveitarfélag að skoða hvort séu góðir leik- og grunnskólar í samfélaginu. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þegar framtíðarstefna bæjarins var gerð árið 2011 var lögð rík áhersla á betra samstarf milli leik- og grunnskóla. Í leikskólum var lögð meiri áhersla á grunnfærni lesturs og stærðfræði en áður hafði verið gert. Framtíðarsýnin hafði jákvæð áhrif á samstarf þessara skólastiga og í dag hefur einnig samstarf milli grunn- og framhaldsskóla aukist. Árið 2013 var svo nemendum í grunnskólum boðið að taka áfanga í íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fleiri áfangar eru í boði í dag. Fyrirkomulagið hefur marga kosti í för með sér fyrir grunnskólanemendur en þeir leggja sig frekar fram í námi á mið- og unglingastigi til þess að komast í þessa áfanga. Jafnframt kynnast nemendur vinnuálagi sem tíðkast í framhaldsskólum og eru þar af leiðandi betur undir það menntastig búnir. Duglegir nemendur gætu jafnvel flýtt töluvert fyrir sér í námi á framhaldsskólastigi. Í stefnu Reykjanesbæjar til ársins 2030 var lögð áhersla á að börnin væru sett í fyrsta sæti og börnin væru mikilvægust og styðja ætti börn svo þau blómstri í fjölskyldunni, í skólum, íþróttum og tómstundum til að auka kraft samfélagsins.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
BA sálfræði og MBA, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.