Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fagna samningum Reykjanesbæjar við HS Orku og GGE
Föstudagur 3. júlí 2009 kl. 11:36

Fagna samningum Reykjanesbæjar við HS Orku og GGE

- Ekki markmið að opinberir aðilar stundi áhætturekstur.

Stjórn sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ fagna þeim samningum sem Reykjanesbær hefur náð við HS Orku um kaup á löndum og auðlindum, og við Geysir Green Energy, um kaup á meirihluta í HS Veitum og sölu á hlut bæjarins í HS Orku.

Ljóst er að framundan eru erfiðir tímar í fjármögnun virkjana sem annarra framkvæmda hér á landi. Miðað við áhrif gengisfalls krónunnar á efnahagsreikning HS Orku sem og stöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum lánamörkuðum er ennfremur ljóst að af frekari virkjunum verður ekki á vegum HS Orku nema með beinu framlagi af hálfu eigenda þess. Því er það mikið gleðiefni að erlendir aðilar hafi sýnt fyrirtækinu áhuga og lýst yfir vilja sínum til þess að leggja því til aukið fé svo hægt verði að standa við þau virkjunar áform sem fyrir liggja. Meðal annars til raforkuframleiðslu fyrir álver og kísilverksmiðju í Helguvík.

Ólíkt veiturekstri er rekstur orkuframleiðslufyrirtækja áhættusamur eins og sést á afkomu þeirra á síðasta ári. Hlutdeild Reyknesinga í tapi HS Orku árið 2008 voru rúmlega fjórir milljarðar króna. Orkuveita Reykjavíkur skilaði 70 þúsund milljóna króna tapi, sem borið verður af borgarbúum. Það mun taka mögulegar arðgreiðslur mörg ár ef ekki áratugi til að vega upp tapið í bókum þessara opinberu aðila. Það er skoðun sjálfstæðisfélaganna að skattfé sem bæjarbúar greiða í sjóði bæjarins eigi ekki heima í jafn áhættusömum rekstri. Því gleðjast félögin yfir því tækifæri sem nú gefst til að selja hlut bæjarins á jafn háu verði og raun ber vitni, eða á sama gengi og önnur bæjarfélög á Suðurnesjum seldu sína hluti á þegar góðærið var í hámarki. Á sama tíma er opinber eign tryggð á þeim auðlindum sem nú eru virkjaðar á vegum fyrirtækisins, svo og meirihlutaeign á þeim hluta sem hefur með einkaleyfishlutann að gera.

Reykjanesbær, 2. júlí 2009.
Heimir, f.u.s. í Reykjanesbæ
Sjálfstæðisfélag Keflavíkur
Sjálfstæðisfélagið Njarðvíkingur
Sjálfstæðiskvennafélagið Sókn, Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024