Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Fagmennska, kærleikur og gleði
  • Fagmennska, kærleikur og gleði
Laugardagur 7. febrúar 2015 kl. 13:06

Fagmennska, kærleikur og gleði

Í tilefni af degi leikskólans er vel við hæfi að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er í leikskólum Reykjanesbæjar. Það er margt sem kemur til eins og skýr hugmyndafræði, góðir stjórnendur, leikskólakennarar og sameiginleg sýn þeirra sem koma að leikskólastarfinu.

Sem leikskólaforeldri hef ég fengið tækifæri til þess að kynnast þessu mikilvæga starfi. Foreldrar leikskólabarna njóta þeirra forréttinda að hitta starfsfólk leikskólanna daglega, fá vikulega pósta og eru því vel upplýstir um það sem börnin þeirra fást við í leikskólanum. Eins og flestir vita þá skiptir gott foreldrasamstarf miklu máli og skilar sér til þeirra sem málið snýst um sem sagt til barnanna. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er gott til þess að vita að börnin séu í höndum fagfólks sem hefur velferð þeirra og hamingju að leiðarljósi. Það að ganga með barn í gegnum fyrsta skólastigið er ákveðinn lærdómur fyrir foreldra. Sjálf hef ég jákvæða og góða reynslu af leikskóla barnanna minna og hef lært margt á þeirri vegferð og er enn að læra.

Á leikskólaaldri eru börn hvað móttækilegust fyrir umhverfi sínu. Þess vegna skiptir faglegt starf leikskólanna gríðarlegu máli fyrir það sem koma skal. Það er því ekki úr lausu lofti gripið máltækið það læra börn sem fyrir þeim er haft því börn eru eins og litlir svampar, í þeirri merkingu að þau þyrstir í að læra, leika og skapa. Þess vegna er sú áhersla sem lögð er á mannræktarþáttinn í leikskólanum sem börnin mín hafa dvalið í ómetanlegur. 

Markviss kennsla á gildum sem stuðla að og ýta undir sjálfstæði, áræðni, vináttu, góð samskipti o.fl. er ekki nóg ein og sér. Í leikskólanum fá börnin tækifæri til þess að æfa þessi mikilvægu gildi og raungera þannig það sem þau læra. 

Ég er ekki bara þakklát fyrir faglegt starf í markvissri málörvun og þjálfun í talnaskilningi. Ég er umfram allt þakklát fyrir það veganesti sem börnunum eru látin í té, fyrir kæraleikann, gleðina og jákvæðnina sem umvefja allt starf skólans. Bros og góðar móttökur á hverjum einasta morgni, skilningur og virðing fyrir margbreytileikanum, vilji til að gera sífellt betur. Og síðast en ekki síst stuðningur við uppeldishlutverk mitt sem foreldri. 

Ég er svo lánsöm að hafa kynnst leikskólastarfi þar sem fyrir er uppbyggileg uppeldisstefna, Hjallastefnan og henni fylgt vel eftir af metnaðarfullum og áhugasömum starfsmannahópi.

Ég ber mikla virðingu fyrir starfi leikskólakennara og er þakklát fyrir leikskólann okkar.

Anna Hulda Einarsdóttir,

Formaður foreldrafélags leikskólans Gimlis.