Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Færri banaslys í umferðinni en síðustu ár
Miðvikudagur 11. janúar 2006 kl. 02:46

Færri banaslys í umferðinni en síðustu ár

Umferðarslys eru annað og meira en tölur á blaði og á bakvið hvert slys er stór hópur einstaklinga sem á um sárt að binda. Síðustu misseri hefur umræða um umferðaröryggismál verið áberandi samhliða forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum. Þegar horft er til umferðarslysa eru þrír meginþættir sem skipta máli þ.e. ökumaðurinn, ökutækið og umferðarmannvirkin. Við munum aldrei búa í samfélagi þar sem ökumenn gera ekki mistök en slysum má þó fækka með betri umferðarfræðslu og bættu eftirliti. Þá hefur bílafloti landsmanna endurnýjast og öruggari bílar komið í stað eldri og ótraustari bifreiða. Samhliða þessu getum við með bættum vegum, umhverfi þeirra og gatnamótum dregið verulega úr fjölda alvarlegra slysa og þannig sameiginlega náð árangri í þessum mikilvæga málaflokki. Ánægjulegt skref í þessa átt var tekið þegar Félag íslenskra bifreiðaeiganda tók nýlega við nýjum bíl sem tengist EuroRAP verkefninu á Íslandi en hlutverk hans er að skoða umferðamestu og slysamestu vegi á landinu og gefa veginum stjörnur út frá öryggisþáttum í hönnun og umhverfi þeirra.

Á síðasta ári létust 19 einstaklingar í umferðarslysum hér á landi og hefur banaslysum því fækkað nokkuð frá síðustu árum þrátt fyrir að veruleg aukning hafi orðið á bifreiðaeign landsmanna. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni þegar árangur í umferðarmálum er eins sýnilegur og síðasta ár bendir til en um leið hljótum við að vera sammála um að hvert slys er einum of mikið og lokamarkmiðið hlýtur að vera að enginn láti lífið í umferðinni eða slasist alvarlega. Með bættum samgöngumannvirkjum, öruggari ökutækjum og auknum áherslum á umferðaröryggi getum við náð þessum árangri og þannig verið fyrirmyndarland í umferðinni á næstu árum.

Breytingar á Reykjanesbraut
Í langri og strangri báráttu um örugga Reykjanesbraut var áherslan lögð á hve hátt hlutfall banaslysa á þessum 24 kílómetra vegarkafla hafi verið um áraraðir. Eftir að fyrri hluti tvöföldunnar Reykjanesbrautar var tilbúin um mitt árið 2004 hafa blessunarlega engin banaslys eða alvarlega slys orðið en átján mánuði þar á undan létust sjö einstaklingar í jafnmörgum slysum. Ef meðaltal banaslysa á Reykjanesbraut síðustu ára er bætt við þann fjölda sem lést á síðasta ári erum við þegar komin í meðaltalstölu banaslysa á landinu öllu. Þannig hefur þessi einstaka framkvæmd ekki bara skilað árangri á brautinni sjálfri heldur lækkað fjölda banaslysa á landinu öllu fyrir neðan meðaltal síðustu ára. Skilningur þingmanna og ráðherra um að hér þurfti að bregðast við hefur því þegar sannað sig sem eitt stærsta umferðaröryggismál landsins síðustu áratugi. Framkvæmd við síðari hluta brautarinnar er þegar hafin en með meiri umferðarhraða þarf þegar að huga að næstu skrefum sem er betri lýsing og vegrið beggja vegna akbrauta en mikil arðsemi felst í öllum framkvæmdum sem draga úr banaslysum og öðrum alvarlegum slysum.

Hellisheiðina þarf að tvöfalda
Þegar horft er til alvarlegra slysa síðustu ára má sjá að ákveðnir vegakaflar s.s. stofnbrautir í nágrenni höfuðborgarinnar standa upp úr og viðhalda þannig þeim fjölda sem látast í umferðinni á Íslandi á hverju ári. Þessa vegakafla þarf að forgangsraða nú þegar og gera á þeim úrbætur sem koma í veg fyrir þessi slys. Þegar horft er til árangurs með framkvæmdir á Reykjanesbrautinni og nú á Vesturlandsvegi eru það vonbrigði að ökumenn telji hönnun Suðurlandsvegar ekki hafa heppnast nógu vel en í blöðum hafa birst greinar þar sem íbúar austan Hellisheiðar hafa lýst yfir óánægju með nýjan vegarkafla á milli Reykjavíkur og Selfoss yfir Svínahraun sem tekinn var í notkun nú í haust. Mitt mat er að Suðurlandsveg eigi einnig að tvöfalda alla leið til Selfoss eins og Reykjanesbrautina enda eru aðrar lausnir sbr. tvíbreiður vegur öðrum megin en einbreiður hinum megin aðeins skammtímalausn. Þessum sjónarmiðum mínum hef ég þegar lýst við þingmenn Suðurlandskjördæmis og mun beita mér í þeirri baráttu með vinum Hellisheiðar.

Ég skora á íbúa fyrir austan fjall að standa betur saman í baráttu sinni eins og Suðurnesjamenn gerðu vegna tvöföldunnar Reykjanesbrautar enda hér um að ræða mikilvægt öryggismál fyrir alla landsmenn. Rök um að ódýrara sé að leggja 2+1 veg en tvöfaldar akreinar í báðar áttir eiga einfaldlega ekki við um fjölfarna vegi eins og Suðurlandsveg sérstaklega þegar haft er í huga að fjöldi bíla skv. talningu dreifist ekki jafnt yfir sólarhringinn eða árstíðir. Sú framkvæmd myndi því falla vel að metnaðarfullri umferðaröryggisáætlun stjórnvalda um að fækka slysum í umferðinni að minnsta kosti um 40% fyrir árslok 2012.

Lokaorð
Árið 2005 létust 28 einstaklingar í slysum á Íslandi samkvæmt skráningu Slysavarnafélagsins Landsbjargar en banaslys hafa aldrei verið jafn fá frá því að byrjað var að skrá öll slys en það er árið 1941. Eins og síðustu áratugi, urðu flest slysin í tengslum við umferðina þar sem 19 manns létust í 16 slysum. Í upphafi síðustu aldar voru sjóslys og drukknanir oft talin í tugum einstaklinga á hverju ári. Þessi slys heyra nú til undantekinga og af því ber einnig að stefna í umferðarmálum.

Umferðarslys valda miklum þjáningum og sorg en krafa landsmanna er að umferðaröryggi hér á landi sé með því besta sem þekkist í heiminum og er það skilda þingmanna að láta öryggismál hafa meira vægi þegar horft er til verkefna í samgöngumálum. Á Norðurlöndum þakka menn góðan árangur í fækkun slysa fyrst of fremst því að vegir hafi verið bætir verulega. Hér á landi hefur tvöföldun Reykjanesbrautar þegar sannað sig en áfram þarf að halda á sömu braut. Kjördæmapot og áherslur innan svæða verða ávallt til staðar en framkvæmdir sem sýnilega fækka banaslysum á landsvísu verða ávallt að hafa forgang. Sú forgangsröðun getur einnig átt sér stað innan kjördæmanna sjálfra en í nýútkominni skýrslu um samgöngumál á Suðurnesjum, þar sem næstu framkvæmdir eru settar upp í forgangslista og samþykktar af öllum sveitarstjórnum, eru verkþættir sem kölluðu á umferðaröryggi settir efst á lista.

Við endurskoðun á 12 ára samgönguáætlun skapast svigrúm til að flýta stórum verkum þar sem öryggi er haft í fyrirrúmi en 3,1 milljarður af andvirði sölu símans var settur í vegaframkvæmdir. Með forgangsröðun, betri hönnun og bættum samgöngumannvirkjum tryggjum við öryggi landsmanna allra.

Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og stjórnarmaður í FÍB.



Áður birt á www.steini.is og í Morgunblaðinu sl. mánudag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024