Fædd og uppalin í Keflavík
Stuðningsmenn sr. Erlu Guðmundsdóttur skrifa.
Föstudaginn 8. maí frá kl. 13:00 til kl. 18:00 verður kosið til sóknarprests við Keflavíkurkirkju. Alls bárust Biskupi Íslands 1944 undirskriftir frá sóknarbörnum í Keflavík sem óskuðu þess að kosning færi fram um embætti sóknarprests, sem dugði til þess að knýja fram kosningu. Er það mikill sigur fyrir sóknarbörn að fá að velja sér sjálf sóknarprest í stað þess að stóla á valnefnd Biskupsstofu sem fara þyrfti eftir fyrirfram skilgreindum tilmælum sem taka m.a. ekki mið af því að sóknarprestur hafi búsetu í bæjarfélaginu.
Nú er ljóst að Sr. Erla Guðmundsdóttir sem starfað hefur við Keflavíkurkirkju í tæplega 10 ár og 6 ár sem prestur, er eini umsækjandinn um stöðu sóknarprest í Keflavíkurkirkju. Því verður kosið um hana eina. Það að enginn annar sæki um stöðuna gefur til kynna að prestar lýsi yfir stuðningi við Sr. Erlu. Hún hefur sinnt starfi sínu af alúð og er vel liðin innan kirkjunnar.
Erla er fædd og uppalin í Keflavík og hefur sterk tengsl við bæjarfélagið. Hún hefur unnið frábært uppbyggingarstarf undir handleiðslu og í samstarfi við Sr. Skúla og Sr. Sigfús prestana við Keflavíkurkirkju. Safnaðarstarfið með þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum og sú sátt sem ríkt hefur í söfnuðinum undanfarin ár er rómuð langt út fyrir Keflavíkurkirkju.
Við stuðningsmenn Sr. Erlu erum sannfærð um að hún sé bæði vel að embættinu komin og reynslumikill prestur. En til þess að hún hljóti góðan byr í nýtt hlutverk þarf hún áframhaldandi stuðning þinn lesandi góður. Þú þarft að koma og kjósa.
Kosið er í Oddfellowhúsinu Grófinni 6, í Keflavík eftirtalda næstu daga:
Laugardaginn 2. maí frá kl. 13:00 til kl. 16:00.
Þriðjudaginn 5. maí frá kl. 15:00 til kl. 18:00.
Kjördagur er síðan föstudaginn 8. maí frá kl. 13:00 til kl. 18:00
Við hvetjum alla Keflavíkinga til þess að gefa sér tíma og kjósa, það skiptir okkur öll máli og mikilvægt að Biskup Íslands sjái að nýr sóknarprestur njóti trausts og hafi sterkan stuðning sóknarbarna Keflavíkurkirkju.
Styðjum Sr. Erlu í embætti sóknarprests Keflavíkurkirkju.
Stuðningsmenn sr. Erlu Guðmundsdóttur.